Berglind Hreiðars með nýja bók

Berglind Hreiðarsdóttir.
Berglind Hreiðarsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn ástsælasti matarbloggari landsins, Berglind Hreiðarsdóttir, hefur sent frá sér nýja bók sem ber titilinn Saumaklúbburinn. Í henni má finna yfir 140 uppskriftir sem eru æði fjölbreyttar.

„Uppskriftirnar spanna allt frá salötum yfir í ostagóðgæti, aðalrétti, smárétti, kökur og kræsingar og koma úr ýmsum áttum. Auk hefðbundinna uppskrifta eru settir fram tíu fullbúnir saumaklúbbar hjá frábærum konum í kringum mig svo allir ættu að geta fundið hugmyndir og uppskriftir við hæfi,“ segir Berglind um bókina sem komin er í valdar verslanir Pennans og í Fjarðarkaup.

„Ég elska að stússa í eldhúsinu, búa til góðar uppskriftir, bjóða í kaffi, kvöldmat og allar veislur. Ég fæ fiðring í magann við tilhugsunina um að gera eitthvað gómsætt og gleðja fólkið í kringum mig með góðum veitingum og óvæntum ævintýrum. Ég hef verið svona frá því ég man eftir mér svo þetta litla áhugamál mitt hefur heldur betur undið upp á sig og nú gefið af sér þessa dásamlegu matreiðslubók.“

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is