Flest elskum við osta og það er fátt betra en bráðinn ostur með dýrindis meðlæti. Slíkir réttir eru vinsælir – bæði á veisluborðið sem og í saumaklúbbum.
Þessi útfærsla kemur frá Lindu Ben og hún notar franskan Brie Président-rjómaost sem er eiginlega algjört skyldusmakk fyrir ostaunnendur. Tiltölulega einfaldur réttur sem stendur alltaf fyrir sínu og má með sanni kalla krúnudjásn á hvert veisluborð.
Brie-rjómaostsídýfa
- 2 stk. Brie Président-rjómaostur
- 1 msk. saxaðar pistasíuhnetur
- 2-3 stk. þurrkaðar fíkjur
- 1/3 granatepli
- u.þ.b. 1/2 msk. hunang
- Carr's-kex
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 200°C, stillið á undir+yfir.
- Setjið rjómaostinn í eldfast mót og bakið í ofni í 15 mín.
- Skerið pistasíuhnetur og þurrkuðu fíkjurnar niður, opnið granateplið og takið innan úr u.þ.b. 1/3. Raðið ofan á ostinn þegar hann kemur út úr ofninum og setjið örlítið hunang yfir.
- Berið fram með Carr's-kexi.