Helga Gabríela tók eldhúsið í gegn

Helga Gabríela Sigurðardóttir.
Helga Gabríela Sigurðardóttir. Ljósmynd/Facebook

Yfirkokkurinn á Klambrar Bistro, Helga Gabríela Sigurðardóttir, tók eldhúsið hjá sér í gegn á dögunum og eins og sjá má er útkoman til fyrirmyndar. Búið er að létta verulega á eldhúsinu auk þess sem vinnuplássið hefur margfaldast.

Að sögn Helgu var markmiðið að gefa eldhúsinu andlitslyftingu án þess að kosta of miklu til þar sem planið er að skipta um húsnæði eftir nokkur ár.

„Það sem okkur langaði til þess að gera var að opna eldhúsið og gera það bjartara. Við byrjuðum á því að rífa niður efri skápana ásamt gömlum flísum. Flísalögðum upp á nýtt allan vegginn með stórum „subway“-flísum með demantaskurði sem við erum hrikalega ánægð með,“ en slíkar flísar hafa notið mikilla vinsælda og þykja bæði einstaklega fallegar og sígildar.

„Við settum nýja borðplötu á borðin sem við framlengdum alveg upp að veggnum til að nýta og stækka eldhúsið. Þessu fylgdi auðvitað nýr stór vaskur og spanhelluborð, sem er frábært að elda á. Það kom ekkert annað til greina en að láta sérsmíða hillurnar fyrir okkur þar sem við þurftum að hafa þær sterkar og í flútti við innréttinguna. Strákarnir í Byko smíðuðu fyrir okkur þessar hillur, en þetta eru svokallaðir sólbekkir,“ segir Helga og segir að þetta sé algjör snilldarlausn sem hún mæli heilshugar með.

„Lokahnykkurinn á þessu eldhúsævintýri er að við eigum eftir að setja ljós undir neðri hillurnar ásamt því að hengja upp smart hangandi ljós við barstólana. Við erum síðan að gæla við það að láta smíða spegil á vegginn þar sem klukkan er, en spegilinn mundi þá ná upp í loft og vera samsíða borðplötunni,“ segir Helga og telur að kostnaðurinn sé kominn upp í 450 þúsund sem verður að teljast vel sloppið fyrir gjörbreytt eldhús.

Nýja eldhúsið er miklu bjartara og opnara auk þess sem …
Nýja eldhúsið er miklu bjartara og opnara auk þess sem vinnurýmið hefur margfaldast.
Hér má sjá eldhúsið fyrir breytingar en efri skáparnir voru …
Hér má sjá eldhúsið fyrir breytingar en efri skáparnir voru teknir niður og borðplatan lengd út að vegg.
Gömlu flísarnar voru fjarlægðar.
Gömlu flísarnar voru fjarlægðar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert