Vínið sem þú verður að smakka áður en þú deyrð

Guðrún Björk Geirsdóttir, veitingastjóri á VOX og Stefán Einar Stefánsson, …
Guðrún Björk Geirsdóttir, veitingastjóri á VOX og Stefán Einar Stefánsson, formaður hins nýstofnaða Kampavínsfjelags og co. Kristinn Magnússon

Áhugi Íslendinga á kampavíni hefur aukist mikið undanfarin ár og má tala um ákveðna vitundarvakningu í þeim efnum. Þannig er fólk farið að kynna sér vínin betur og læra meira á leyndardóma hvers og eins. Starfsmenn Matarvefs mbl.is hafa ekki farið varhluta af þessari þróun þar sem einn nánasti samstarfsmaður vefsins er fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, Stefán Einar Stefánsson, sem er fróður um kampavín og hefur skrifað talsvert um efnið í blaðið og á mbl.is á síðustu árum. Stefán er formaður hins nýstofnaða Kampavínsfjelags og co., sem í samstarfi við veitingastaðinn VOX Brasserie á Hilton Reykjavík Nordica stendur að metnaðarfullri dagskrá í næstu viku þar sem gestum gefst tækifæri til að para ólík kampavín með mat og kynna sér muninn á þeim.

Það eru þau Stefán Einar og Guðrún Björk Geirsdóttir, veitingastjóri á VOX sem eru fólkið á bak við Kampavínsdagana sem haldnir verða dagana 16.-20. september. Þar verður gestum boðið upp á þriggja rétta glæsilegan matseðil ásamt lystauka (f. amouse-bouche). Með seðlinum verður hægt að panta svokallaða „wine-flight“-kampavínspörun sem samanstendur af fordrykk og smakki á þremur öðrum vínum sem gestir geta parað við réttina og að lokum valið sitt uppáhald og fengið áfyllingu. Þetta gefur fólki einstakt tækifæri til að bera saman ólíkar tegundir af kampavíni og finna hversu ólík vínin í raun eru. „Þarna erum við með úrval vína frá Philipponnat sem er virkilega áhugavert að bera saman. Með þessari aðferð kemur afgerandi karakter hvers víns vel í ljós,“ segir Stefán Einar um vínpörunina en matreiðslumeistarar VOX hafa lagt mikinn metnað í matseðilinn og það sama gildir um val á víninu.

Guðrún Björk segir samstarfið við Kampavínsfjelagið vera hvalreka fyrir VOX. „Það vill nú þannig til að starfsfólkið hér er mjög hrifið af og áhugasamt um kampavín þannig að þetta er einstakt tækifæri fyrir alla aðila að kynna sér kampavín með þessum hætti.“

Kampavínsdagarnir í næstu viku eru þó eingöngu fyrsti viðburðurinn því ætlunin er að endurtaka leikinn á tveggja mánaða fresti og bjóða þá upp á kampavín frá öðrum framleiðendum. „Með þessu gefst íslensku áhugafólki um kampavín einstakt tækifæri til að smakka á vínum frá ólíkum kampavínshúsum,“ segir Stefán.

„Markmiðið er að Kampavínsdagarnir verði haldnir með reglubundnu millibili og verði á endanum þekkt stærð meðal neytenda sem viti að hverju þeir gangi,“ segir Guðrún. „Starfsfólk okkar mun svo fræða gesti um eiginleika vínanna sem þeir eru að smakka á og auka þannig enn á upplifunina.“

Félagar í Kampavínsfjelaginu fá þar að auki sérstaka kynningu og smökkun í upphafi Kampavínsdaganna en í félaginu eru aðeins 100 félagar á hverjum tíma að hámarki. Meðlimir greiða hóflegt mánaðargjald og fá aðgang að viðburðum félagsins, fréttabréfi og kampavínskjörum sem þekkjast ekki.

Stefán Einar hefur verið öflugur talsmaður kampavíns hér á landi og óþreytandi í viðleitni sinni við að fræða fólk um hvað kampavín er, hvernig það er ræktað, hverjir séu helstu gerendur og leikendur í vínræktarhéraðinu fræga og hvernig best sé að njóta þess. Hann segist merkja aukinn áhuga á kampavíni hér á landi og að fólk þyrsti í upplýsingar um hvað það sé að drekka og hvaða eiginleika vínið hafi. Þannig sé t.d. ekki sama við hvaða hitastig vínið er drukkið og á tali þeirra Stefáns og Guðrúnar má heyra að hér eru harðkjarna „kampavínsnördar“ á ferð (eins og þau segja sjálf) sem gera sér allt er viðkemur víninu að umtalsefni. Ljóst er að áhuginn og þekkingin er mikil en þau eru sammála um að gestir eigi mikið í vændum og eigi eftir að njóta þess að kynnast kampavíni betur.

Vínin sem verða í boði á Kampavínsdögum eru öll frá Philipponnat:

  • Royale Réserve Brut Royale
  • Réserve Zero Dosage
  • Royale Réserve Rosé
  • Grand Blanc 2010
  • Blanc de Noirs 2012
  • Clos des Goisses 2009

Matseðillinn

  • Fersk ostra „amouse-bouche“ Borin fram á klaka fruit de mer style
  • Íslensk hörpuskel Bakaður blaðlaukur, græn jarðarber, beurre blanc og kartöflucrisp
  • Kálfa rib-eye Djúpsteikt svartrót í raspi, jarðskokkamauk, kálfasoðsósa
  • Græn epli og karamella Karmellað hvítsúkkulaði-ganache, græneplasorbet, pistasíumulningur og græn epli í karamellu

Þriggja rétta matseðill ásamt „amouse-bouche“: 7.900 kr. á mann.

Philipponnat kampavínspörun „Wine-Flight“ með kvöldverði: 11.900 kr. á mann.

Um Philipponnat

Philipponnat-fjölskyldan hefur stundað víngerð í Champagne frá árinu 1522 og í aldanna rás hefur hún eignast nokkrar af verðmætustu vínekrum héraðsins. Frægust þeirra er án nokkurs vafa Clos des Goisses sem almennt er talin merkilegasta ekran af þeim tugum þúsunda sem finna má í Champagne. Þekktasta vínið frá Philipponnat er kennt við þessa ekru og er efniviðurinn í vínið einungis sóttur þangað.

Philipponnat framleiðir úrval kampavína sem spanna allt frá blönduðum og aðgengilegum vínum til höfugri árgangs- og einnarekruvína líkt og Clos des Goisses og 1522 Extra Brut. Þá sendir húsið alla jafna frá sér einnarþrúguvín úr Chardonnay eða Pinot Noir. Lengst af hefur húsið lagt áherslu á ræktun Pinot Noir (Blanc de Noirs) en síðustu árgangar Chardonnay (Grand Blanc) hafa hlotið lof gagnrýnenda um heim allan.

Vínið sem þú verður að smakka áður en þú deyrð

Meðal þess sem boðið verður upp á er einnarekruvínið Clos des Goisses sem ræktað er á þekktustu vínekru Champagne-héraðs. Hún snýr í hásuður og er í 45° halla þannig að öll vinna við ræktunina fer fram í höndum. Hlíðin er úr kalksteini og framleiðslan afar takmörkuð. Það þykir því merkilegt að tekist hafi að fá nokkrar flöskur til landsins sem verða í boði á Kampavínsdögunum. Það verður einnig selt á einstöku verði en á veitingastöðum erlendis er algengt að flaskan kosti um og yfir 60 þúsund krónur en á Kampavínsdögunum á Vox verður hún í boði á tæpar 40 þúsund krónur.

Kampavín á happy hour

Meðan á Kampavínsdögunum stendur verður boðið upp á kampavín á hamingjustund eða „happy hour“, bæði í flösku- og glasavís. Guðrún hvetur fólk til að nýta tækifærið og panta sér ólíkar tegundir og bera saman á mjög hagstæðu verði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »