Þess vegna skaltu ekki þvo gallabuxurnar þínar

mbl.is/Thinkstockphotos

Hendir þú gallabuxunum þínum í þvott í hvert sinn sem það er þvottadagur? Hættu því núna, því við erum með annað trix sem gerir buxurnar þínar eins og nýjar án þess að bleyta upp í þeim.

Ef þú þværð gallabuxur of oft slítur þú efninu, liturinn dofnar og þar fyrir utan þá eru buxurnar sjaldan mjög skítugar. En við viljum samt fríska aðeins upp á þær, því við svitnum óhjákvæmilega og bakteríur setjast í brækurnar.

Svona heldur þú buxunum þínum frískum án vatns og sápu
Það er mjög líklegt að þú sért ekki sammála þessum fyrirmælum og finnist hálfógeðslegt að þvo ekki gallabuxurnar þínar reglulega. En stærstu gallabuxnaframleiðendur eru á einu og sama málinu að það fari ekki vel með buxurnar. Hvað er þá til ráða?
Það sem þykir allra snjallasta ráðið er að setja buxurnar í frystinn – þannig drepur þú allar bakteríurnar sem hafa komið sér huggulega fyrir. Settu buxurnar í poka og inn í frysti yfir nótt. Gott ráð er að hengja þær upp á snúru utandyra í nokkra tíma og buxurnar verða eins og nýjar.

Ef þú færð einhvers konar slettur á buxurnar kemstu einnig langt með rakri tusku. En hafir þú lent í því að hella niður á þig heilu fati af lasagne er vissara að skutla buxunum í þvott – þá á lágu hitastigi og ekki með mikilli sápu.

mbl.is