Heimsþekktir veitingastaðir nota Nordic Wasabi

Íslenska frumkvöðlafyrirtækið Nordic Wasabi heldur áfram sigurgöngu sinni um heiminn en ferskt íslenskt wasabi hefur ítrekað ratað inn á matseðla þekktustu veitingastaða Skandinavíu. Má þar nefna Noma og AOC í Kaupmannahöfn, Frantzén í Stokkhólmi og RE-NAA í Noregi.

Að auki er Nordic Wasabi í samstarfi við einn þekktasta mataráhrifavald Skandinavíu, Anders Husa, sem tók wasabi fyrir og kenndi hvernig á að meðhöndla það auk þess að elda úr því dýrindis-konomyaki og nota ferskt íslensk wasabi til að búa til wasabi-mæjó með. Anders Husa, ásamt maka sínum Kaitlin Orr, hefur um árabil rekið eitt virtasta og áhrifamesta matarblogg Skandinavíu og telur fylgjendafjöldi þeirra vel á fjórða hundrað þúsund auk þess sem þau halda úti vinsælli YouTube-rás og öflugu Instagrammi.

Íslensk sjálfbærni

Það gerir árangur Nordic Wasabi þeim mun einstakari en um er að ræða íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem hefur hægt og rólega verið að hasla sér völl hér heima og erlendis.

Nordic Wasabi er hreint wasabi og er ræktað á sjálfbæran máta á Íslandi. Ræktunin fer fram í hátæknigróðurhúsum á Egilsstöðum þar sem jarðhiti og rafmagn eru nýtt til framleiðslunnar.

95% af wasabi er ekki wasabi

Wasabi er japönsk planta sem hefur einstakt bragð og er mjög ríkjandi í japanskri matargerð. Kúnstugt er að rækta plöntuna og því er yfirleitt brugðið á það ráð að bjóða upp á gervi-wasabi sem er í reynd verksmiðjuframleidd vara unnin úr piparrót með grænum matarlit. Reiknað er með að um 95% af öllu wasabi í heiminum sé gervi-wasabi.

Á Íslandi má meðal annars finna Nordic Wasabi á veitingastöðunum Sushi Social, Fiskfélaginu og Moss í Bláa lóninu og á Sjálandi í Garðabæ, en einnig er það selt í Krónunni á Granda og ýmsum sælkeraverslunum á höfuðborgarsvæðinu ásamt því að hægt er að panta beint í gegnum vefverslunina www.nordicwasabi.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert