Ómótstæðilegur eftirréttur að hætti Sjálands

Ásdís Ásgeirsdóttir

Hér erum við með eftirrétt sem erfitt er að standast. Íslensk jarðarber stíga hér djarfan dans við seiðandi hvítt súkkulaði og útkoman er upp á tíu. Það eru kokkarnir á veitingastaðnum Sjáland sem eiga heiðurinn að uppskriftinni sem þið verðið að prófa.

Íslensk jarðarber og hvítt súkkulaði

Fyrir 4

Hvítt súkkulaði búðingur

  • 500 g rjómi
  • 80 g sykur
  • 30 g hvítt súkkulaði
  • 3 stk. matarlímsblöð

Sjóðið rjómann og sykurinn saman og setjið matarlímið út í. Hellið heitri blöndunni yfir súkkulaðið og blandað vel saman. Búðingnum er svo hellt í fallega skál þar sem hann fær að stífna yfir nótt í kæli sé þess kostur, eða allavega í fjórar klst.

Jarðarberjasósa

  • 250 g jarðaber
  • 10 g flórsykur
  • 7,5 g ylliblómaedik

Setjið allt saman í blandara og maukið í fína sósu.

Kristallað hvítt súkkulaði

  • 175 g hvítt súkkulaði
  • 275 g sykur
  • 100 g vatn

Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og setjið í hrærivél. Sjóðið sykur og vatn saman upp í 140°C og hellið rólega saman við súkkulaðið á meðan hrærivélin gengur hægagang.

Raðið öllu fallega ofan á rjómabúðinginn með ferskum jarðarberjum. Skreytið með ferskri, villtri myntu og kryddið ríflega með svörtum pipar.

Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert