Fór að sækja safakúr en kom til baka með ís

Eiginmaður nokkur á höfuðborgarsvæðinu hugðist gera konu sinni greiða og sækja fyrir hana fyrsta skammtinn af fimm daga safakúr sem hún ætlaði á.

Safaskammturinn kom frá Kaju hjá Matbúri Kaju á Akranesi en afhendingarstaðurinn var Ísgerðin Skúbb á Laugarásvegi. Ekki vildi betur til en svo að eiginmaðurinn fékk afhenta íspöntun og mætti heim hæstánægður með þennan nýja safakúr og var ekki frá því að þetta væri eitthvað sem hann þyrfti að prófa.

Til að toppa vitleysuna hafði eiginmaðurinn verið sendur með lista af spurningum sem átti að leggja fyrir Kaju sem sér um safahreinsunina. Starfsfólk Skúbb vissi því ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar eiginmaðurinn dembdi yfir það spurningum um hvar best væri að fá lífrænt kaffi og hvort það mætti setja möndlumjólk í kaffið meðan á hreinsun stæði. Starfsfólkið skildi ekki hvaðan þetta spurningaflóð kom en gerði sitt allra besta og benti honum á kaffihús þar sem hann gæti sennilega fengið lífrænt kaffi auk þess sem þau töldu ekki líklegt að möndlumjólkin ylli miklum skaða úti í kaffinu.

Með þessar upplýsingar í farteskinu og fullt fangið af ís kom eiginmaðurinn sigri hrósandi heim og var eðlilega nokkuð ánægður með sig.

Að sögn eiginkonunnar er mikið búið að hlæja að þessu öllu saman en farið var til baka með ísinn og honum samviskusamlega skilað. Eiginkonan er hins vegar komin á hinn rétta safakúr en engum sögum fer þó af möndlumjólkinni og hvort það megi drekka hana meðan á hreinsun stendur.

Safakúrinn var helst til of girnilegur.
Safakúrinn var helst til of girnilegur.
mbl.is