Nýr veitingastaður í World Class Laugum

Kristinn Magnússon

Veitingastaðurinn Maika'i hefur verið opnaður í Classanum Sport við hlið líkamsræktarstöðvarinnar World Class Laugum. Þetta segir Ágúst Freyr Hallsson, eigandi staðarins, í samtali við Morgunblaðið. Áður hafði samlokustaðurinn Joe & The Juice verið til húsa í rýminu.

Ágúst hefur rekið Maika'i ásamt kærustu sinni Elísabetu Mettu Svan Ásgeirsdóttur, en staðurinn hefur fram til þessa verið inni á veitingastaðnum Sætum snúðum í Mathöll Höfða og á Hafnartorgi. Síðarnefndi staðurinn var opnaður fyrr í sumar. Að sögn Ágústs hafa viðtökurnar allt frá upphafi ekki látið á sér standa og því ákvað parið að opna fleiri útibú, nú síðast í Laugum.

„Við erum búin að gera samning við World Class, en skálarnar komu í sölu um helgina. Við ætlum að byrja á að opna þarna og svo sjáum við hvað setur. Það kemur vel til greina að opna á fleiri stöðvum,“ segir Ágúst og bætir við að spurn eftir skálum Maika'i hafi aukist svo um munar undanfarna mánuði. „Þetta hefur alveg sprungið. Það er alveg brjálað að gera alla daga og salan eykst í hverjum mánuði.“

Handtínd ber frá Brasilíu

Á Maika'i er boðið upp á acai-skálar sem í grunninn eru búnar til úr handtíndum sambazon-acai-berjum frá Brasilíu. Ofan á grunnskálarnar stendur viðskiptavinum til boða að setja m.a. ber, banana og granóla. Aðspurður segir Ágúst að þau Elísabet eigi fullt í fangi með að tryggja nægt hráefni fyrir staðina þrjá.

„Við höfum þurft að auka mikið við pantanir. Við höfum bara verið að redda okkur, en þess utan er spurn eftir acai í heiminum að aukast mjög mikið,“ segir Ágúst sem kveðst spenntur fyrir komandi mánuðum. Parið muni jafnframt einbeita sér að frekari vexti vörumerkisins Maika'i.

Spurður hvort gera megi ráð fyrir nýjungum á matseðli staðarins segir Ágúst að nýlega hafi ný skál verið tekin í sölu. Ber hún heitið Líf með vísan til Birgittu Lífar Björnsdóttur, markaðsstjóra World Class.

„Þessi skál var að bætast við matseðilinn og það verður gaman að sjá hvernig viðtökurnar verða. Við erum alltaf að skoða hvort bæta eigi við nýjum skálum en við erum mjög spennt að sjá hvort þessi fellur í kramið hjá viðskiptavinum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »