Gömlu góðu húsráðin við hálsbólgu

Hálsbólga og kvef hefur herjað landann - og þá er …
Hálsbólga og kvef hefur herjað landann - og þá er gott að eiga góð ráð til að leita í. mbl.is/colourbox

Árstíminn með hor í nös og hálsbólgu er runninn upp – og það virðast fáir ætla að komast undan pestinni. Hér eru nokkur skotheld ráð gegn hálsbólgu sem þú verður að þekkja.

Negulnaglar

Negull hefur oftar en ekki verið notaður sem verkjalyf, sérstaklega í kínverskri læknisfræði og þá við hálsbólgu og tannpínu. Negull inniheldur efnið eugenol sem hefur náttúruleg verkjastillandi áhrif. Taktu þrjá negulnagla og sjúgðu þá þar til þeir verða mjúkir. Tyggðu þá þá eins og tyggjó þar til naglarnir hafa leyst upp í munninum og spýttu restinni í ruslið.

Notaðu gufuna

Ef hálsinn virðist sár og þurr er mjög gott að nota gufu til að lina verkina. Hitaðu lítra af vatni og settu fimm dropa af eucalyptusolíu út í. Settu handklæði yfir hausinn og hallaðu þér yfir skálina á meðan þú andar að þér gufunni í 5-10 mínútur.

Sjúgðu hvítlauk

Tilhugsunin ein og sér um að setja hráan hvítlauk upp í munninn er fráhrindandi. En ef þú ert að glíma við hálsbólgu þá er hvítlaukur algjör stjarna! Hvítlaukur inniheldur alliin sem breytist í allicin og er mjög gott í að berjast við streptakokkabakteríur. Taktu eitt hvítlauksrif og sjúgðu það eins og góðan brjóstsykur. Hvítlaukurinn mun alls ekki bragðast eins og sælgæti en láttu þig hafa það. Gott er að sjúga eitt rif á dag þar til hálsbólgan er á bak og burt.

Heit rommblanda

Hér er blanda sem margir vilja fara eftir og það ekki að ástæðulausu – romm, sítróna og hunang. Í fyrsta lagi hjálpa sítróna og hunang hálsinum að lina verkina og í öðru lagi getur áfengið fengið þig til að sofa betur. Almennt er ekki ráðlagt að neyta áfengis þegar maður er veikur en þessi blanda hefur fengið undanþágu. Blandið hálfum desílítra af rommi saman við teskeið af hunangi og teskeið af nýpressuðum sítrónusafa ásamt fjórum desílítrum af volgu vatni. Drekkið einn drykk fyrir svefninn.

Saltvatn

Hver sem ástæðan er fyrir hálsbólgunni þá er hálsinn bólginn og aumur. Saltvatn reynist þá gott til að fá bólgurnar til að hjaðna og létta á sársaukanum. Saltvatnið fjarlægir einnig umframslím sem auðveldar rennslið í nefinu. Leysið upp hálfa teskeið af salti í desílítra af volgu vatni. Veltið vatninu í munninum og látið „gurgla“ í hálsinum í eina mínútu og spýtið því síðan út. Endurtakið þrisvar yfir daginn.

Drekktu engifer

Margir trúa á gæði engiferrótar en hún getur losað slím úr hálsi og nefi og minnkar bólgur í hálsi. Raspaðu 5 cm langa engiferrót og fylltu lítinn pott með vatni. Bættu engifer saman við þegar vatnið byrjar að sjóða og láttu sjóða í 3-5 mínútur. Gott er að blanda engifervatni saman við skeið af hunangi og drekka svo.

Matarsódi

Matarsódi er bakteríudrepandi og getur hjálpað til við að drepa ertandi bakteríur í hálsinum. Ef þú blandar smá matarsóda saman við salt ertu komin/n með blöndu sem hálsinn mun þakka þér fyrir. Hellið heitu vatni í bolla og blandið saman við hálfa teskeið af salti og hálfa teskeið af matarsóda. Veltið blöndunni í munninum og látið „gurgla“ í hálsinum og spýtið svo út. Endurtakið allt að þrisvar yfir daginn.

mbl.is