Ekta ítalskt lasagna að hætti Berglindar

Ljósmynd/Berglind Guðmundsdóttir

Þessi uppskrift flokkast sem þungavigtar enda erum við hér með lasagna eins og það gerist best. Ítalíu-drottningin Berglind Guðmunds á GRGS.is er flinkari en flestir í ítalskri matargerð og við skorum á ykkur að prófa þessa framúrskarandi uppskrift.

Ekta ítalskt lasagna

Fyrir 6

  • 500 g nautahakk
  • 500 g svínahakk
  • 1 laukur, saxaður
  • 2-3 gulrætur, smátt saxaðar (má sleppa eða bæta við grænmeti að eigin vali)
  • 5 hvítlauksrif, pressuð
  • 800 g tómatar í dós, maukaðir
  • 170 g tómatpaste
  • 400 g tómatpassata
  • 120 ml hvítvín
  • 2 msk. sykur
  • 1 lúka fersk basilíka, söxuð
  • 1 tsk. fennelfræ
  • 1 tsk. þurrkað óreganó
  • 1/2 tsk. salt
  • 1/2 tsk. svartur pipar
  • 1/4 búnt fersk steinselja, söxuð
  • 500 g lasagnaplötur, helst ferskar
  • 850 g ricottaostur (má nota kotasælu)
  • 2 msk fersk steinselja, söxuð
  • 1 stórt egg
  • 1/2 tsk. salt
  • 1/4 tsk. múskat
  • 500 g ferskur mozzarella, skorinn í sneiðar (má nota rifinn þótt ferskur sé betri)
  • parmesanostur, rifinn

Leiðbeiningar

1. Steikið hakkið í stórum potti og bætið lauk og hvítlauk saman við. Steikið þar til kjötið er farið að brúnast og hrærið stöðugt í því.

2. Bætið við sykri, ferskri basilíku, fennel, óreganó, salti, pipar og steinselju.

3. Hellið næst maukuðu tómötum, tómatpúrru, tómatpassata og hvítvíni út í pottinn. Hitið að suðu. Lækkið þá hitann niður í lægstu stillingu og látið malla í 1-4 klst.

4. Setjið ricotta (kotasælu), egg, steinselju, salt og múskat saman í skál og blandið vel saman.

5. Setjið um 2-3 dl af kjötsósunni í eldfast mót. Setjið lasagnaplötur yfir.

6. Látið 1/3 af ricottablöndunni yfir og því næst mozzarella.

7. Látið 3-4 dl af kjötsósunni yfir mozzarella og stráið parmesan yfir.

8. Endurtakið þetta tvisvar til viðbótar.

9. Endið á að setja kjötsósu yfir pasta, þá mozzarella og að lokum parmesan.

10. Setjið álpappír yfir mótið og látið í 200°c heitan ofn í 30 mínútur.

11. Takið álpappírinn af og eldið í 25 mínútur eða þar til osturinn er orðinn gylltur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert