Krónan opnar nýja verslun í Hafnarfirði

Krónan opnar nýja verslun að Norðurhellu í Hafnarfirði á morgun.
Krónan opnar nýja verslun að Norðurhellu í Hafnarfirði á morgun. mbl.is/

Landvinningar Krónunnar halda áfram en á morgun opnar fyrirtækið sína 23. verslun að Norðurhellu í Hafnarfirði. Einungis vika er frá því að Krónan Hallveigarstíg opnaði og þá er áætluð opnun Krónunnar í Austurveri eftir nokkrar vikur.

Í fjölda ára hefur Krónan lagt upp með að ferskir ávextir og grænmeti mæti viðskiptavinum um leið og gengið er inn og eru nýju verslanirnar engin undantekning. Umhverfismarkmið eru þá alltaf í forgrunni og lokaðir kælar sem skila góðum orkusparnaði.

Einnig fór af stað nýjung hjá Krónunni í haust en það eru merkingarnar ódýrt, sem ætlaðar eru til að einfalda viðskiptavinum að velja ódýra kosti í hverjum vöruflokki.

„Það er auðvitað spennandi og skemmtilegt að taka til starfa um það leyti sem þrjár nýjar verslanir eru að opna. Viðtökur á Hallveigarstígnum hafa verið langt umfram væntingar og við erum gríðarlega þakklát fyrir þann mikla hljómgrunn sem verslanir okkar hljóta. Þá er nýja verslunin að Norðurhellu, eins og allar nýjar verslanir Krónunnar, hönnuð með umhverfissjónarmið í huga og áherslan ávallt á ferskvöru og hollustu,” segir nýr framkvæmdastjóri Krónunnar, Ásta S. Fjeldsted.

Sérstök opnunartilboð verða fram yfir helgi í versluninni. Opnunartími verslunarinnar er frá 9 – 20 alla daga vikunnar.

mbl.is