Það vakti mikla athygli í viskíheiminum fyrir fimm árum þegar nýtt söfnunarverkefni birtist á hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter. Þar var mættur til leiks hópur hönnuða með brennandi ástríðu fyrir drykknum og sterkar skoðanir á því hvernig rétta glasið getur gert viskídrykkju að enn ánægjulegri iðju.

Þar til Norlan-glasið leit dagsins ljós voru einkum tveir kostir í boði fyrir viskíunnendur: annars vegar Glencairn-glasið, með sína meðalstóru vömb og granna háls; og hins vegar „tumbler“ með sitt stutta, sívalningslaga form og þykka, þunga botn. Að mati hönnuða Norlan hefur fyrrnefnda glasið þann ókost að þjappa saman þeim gufum sem rísa upp af viskíinu svo að rífur í nef og augu, auk þess að vera ílát sem beinir allri athygli þess sem drekkur beint ofan í glasið. Tumblerinn, aftur á móti, er glas sem má drekka úr án þess að missa augnsamband við sessunautana á góðri stundu, en opið á glasinu er svo stórt að anganin af drykknum þynnist út.

Norlan-glasið sameinar bestu kosti hinna glasanna tveggja og bætir um betur með fínum rákum í botni ílátsins sem hjálpa til við að láta viskíið anda og losa frá sér römmustu etanólgufurnar svo að önnur ilm- og bragðeinkenni fá sín betur notið.

Fyrir kröftugan og blæbrigðaríkan drykk eins og viskí skiptir svo sannarlega máli að velja rétta glasið, og það er alveg hárrétt hjá hönnuðum Norlan-glassins að upplifunin af drykknum tekur breytingum eftir því hvernig glas og viskí spila saman. Sá sem þetta skrifar getur vottað að viskí fær allt aðra áferð þegar það er drukkið úr tumbler eða Glencairn-glasi, og yfirleitt er útkoman best með Norlan-glasinu.

Mætti vera þyngra

Þarf samt að hafa þann fyrirvara á allri þessari jákvæðni í garð Norlan-glassins að það er ekki hentugt fyrir þá sem vilja hafa ísmola í viskíinu sínu. Handblásið glerið er einfaldlega of fíngert og gæti brotnað þegar molinn fellur ofan í glasið. Þá er glasið lauflétt, sem sumum þykir verra. Eins gæti rammasta og ilmsterkasta viskíið smakkast betur í víðum tumbler sem hleypir gufunum hratt og vel í burtu.

Panta má glasið hjá vefversluninni Norlanglass.com og kostar parið um 48 pund

Greinin birtist upphaflega í dálkinum Hið ljúfa líf í ViðskiptaMogganum 23. september.