Mikil ásókn í drykki sem ekki eru orkudrykkir

Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Það eru ekki bara koffínfylltir orkudrykkir sem íslensk ungmenni neyta í miklum mæli um þessar mundir heldur er einnig talsvert framboð sambærilegra drykkja sem ekki innihalda koffín eða önnur örvandi efni en niðurstöður nýrrar rannsóknar sýna fram á óhóflega orkudrykkjaneyslu íslenskra ungmenna og Matvælastofnun vill banna eða takmarka aðgengi barna í 8. til 10. bekk að orkudrykkjum.

„Það hefur verið stöðugur vöxtur í sölu á Slow Cow-drykknum frá því að hann kom í verslanir í upphafi árs. Slow Cow er einmitt ekki orkudrykkur þar sem það er hvorki koffín né önnur örvandi efni í drykknum,“ segir Kristín Minney Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Slow Cow á Íslandi. 

„Þvert á móti eru innihaldsefni Slow Cow þekkt fyrir að hjálpa neytendum að slaka á og vinna gegn streitu á tímum álags, auk þess að auka einbeitingu og lærdómsgetu. Það er nokkuð sem ætti að nýtast ungmennum í námi enn betur en örvandi orkudrykkir. Slow Cow vinnur til dæmis gegn prófkvíða og eykur svefngæði.“

Margir hafa viljað kalla slíka drykki lífsstíls- eða heilsudrykki og eru flestir þeirra léttkolsýrðir og innihalda lítinn eða engan sykur eða hitaeiningar. Kristín Minney er samt hikandi við að flokka Slow Cow sem heilsudrykk.

„Þó að í drykknum sé ekkert nema náttúruleg innihaldsefni sem eru þekkt fyrir jákvæð áhrif á okkur, bæði á líkama og sál, höfum við ekki viljað halda því fram að um heilsudrykk sé að ræða, þótt heilsusamlegur sé í samanburði við aðra drykki. Við höfum þó heyrt fjölmörg dæmi um fólk sem drekkur vöruna okkar í heilsutengdum tilgangi. Foreldrar krakka sem hafa greinst með ADHD hafa lýst því yfir að þau sjái mikinn mun á krökkunum. Fólk með kvíðavanda hefur einnig sagt okkur frá góðri reynslu sinni og finnst okkur gaman að heyra slíkar sögur.“

mbl.is