Nýir og spennandi Ostóberostar í takmörkuðu upplagi

Ljósmynd/MS

Í tilefni þess að nú fer fram hinn árlegi Ostóber hefur Mjólkursamsalan sett á markað sérstaka Ostóberosta. Um er að ræða fimm glænýja osta sem framleiddir voru sérstaklega fyrir þetta tilefni en þeir verða seldir í takmörkuðu upplagi nú í október.

Ljósmynd/MS

Fyrst ber að nefna Óðalsostana Gouda sterkan, Ísbúa og Tind sem allir hafa fengið lengri þroskunartíma en venjulega eða meira en tólf mánuði og bera því merkið 12+ á nýjum umbúðum. Á þessum tíma verða ostarnir einstaklega bragðmiklir og sérkenni hvers og eins verða enn sterkari. Í Gouda sterkum 12+ fylgja mjúkir smjörtónar kröftugu bragðinu, Ísbúi 12+ hefur flauelsmjúka áferð og parast vel með sætu og söltu og þá er Tindur 12+ ómótstæðilegur með sinni stökku áferð og sæta eftirbragði.

Ljósmynd/MS

Tveir ostanna bera svo nafn Búra en þeir bræður gætu ekki verið ólíkari. Búri með sinnepsfræjum og kúmeni er bragðbættur ostur þar sem ólíkum kryddtegundum er blandað saman á einstakan hátt. Útkoman er kraftmikið bragð með keim af fortíðarþrá. Búri með trönuberjum og lime er bragðbættur ostur þar sem sætt og súrt bragð mætast á einstaklega spennandi hátt. Framandi bragð og sannkölluð veisla fyrir bragðlaukana.

mbl.is