Kannast þú við hormónatengt hungur?

Kannastu við að þig langi meira í súkkulaði og sætindi …
Kannastu við að þig langi meira í súkkulaði og sætindi á ákveðnum tíma mánaðarins? mbl.is/MALLIKA WIRIYATHITIPIRN / EYEEMGETTY IMAGES

Kannastu við að vakna að morgni og það eina sem þú hugsar um er að kafa ofan í Nutella-krukkuna eða opna snakkpokann sem þú ætlaðir þér um helgina? Slíkar langanir hellast oftast yfir konur um það leyti sem blæðingar nálgast. En þér að segja – þá eru þessar langanir fullkomlega eðlilegar.

Shahzadi Harpar, næringarfræðingur og stofnandi The Harper Clinic, og Valerie Agyeman RD, stofnandi Flourish Heights, leiða okkur hér að sannleikanum um hvað sé að gerast í líkamanum á þessum tíma. Dr. Harpar segir að það sé fullkomlega eðlilegt og mjög algengt að finna fyrir auknu hungri á meðan þú ert á blæðingum og dagana á undan. Það sem er að gerast í líkamanum á þessum tíma er að prógesterónhormónið er meira ráðandi á þessum hluta hringrásarinnar en estrógenmagn minnkar. Þetta er einnig ástæða þess að þú verður þreytt og finnur jafnvel fyrir skapsveiflum.

Og hvað snakkát varðar heldur Harper því fram að konur ættu alls ekki að finna til sektarkenndar eða kvíða yfir því að vilja borða meira – frekar njóta þess að líkaminn sé að kalla á smá „sukk“ án þess að ofhugsa og skamma sig fyrir það. Ef þú finnur aftur á móti engan mun, sama hvar á tíðahringnum þú ert, gæti verið að þú værir með ofvirkan skjaldkirtil. Eins ef þú tekur eftir skjálfta eða hjartsláttarónotum, þá skaltu leita til læknis.

Í raun er líkaminn að búa sig undir næsta tímabil með því að byggja upp og þykkja legslímhúðina. Og þessi áfangi krefst meiri orku, sem kemur úr næringarefnum og mat. Þá geta konur sótt meira í fitu og kolvetni á þessum tíma og síðar á tímabilinu getur fyrirtíðaspenna átt hlut að máli.

Valerie Agyeman segir jafnframt að rannsóknir bendi til þess að til séu ákveðin matvæli sem jafnvel geti hjálpað til við að draga úr ákveðnum einkennum, auk þess að hafa áhrif á orkustig þitt og skap. En best sé að halda líkamanum nærðum með næringarríkum mat allan mánuðinn. Bættu heilkornum, ávöxtum, grænmeti, fræjum, hnetum og belgjurtum inn í matardagskrána. Borðaðu hummus, heilkornakex, kotasælu, epli með hnetusmjöri og gríska jógúrt með hunangi og berjum.

Og á þessu sérstaka ég-vil-borða-allt-tímabili, teygðu þig þá bara í snakkpokann og fáðu þér köku ef það lætur þér líða vel og önnur einkenni versna ekki. Heiðraðu þrá þína eftir einhverju sætu! Ef við setjum of miklar hömlur á okkur borðum við oft á tíðum meira og fáum sektarkennd – og endum í vítahring. Svo ef löngunin hellist yfir þig skaltu spyrja sjálfa þig hvað þig langar í. Ef þig langar í súkkulaði skaltu láta það eftir þér – en borðaðu það með athygli til að njóta bragðsins og áferðarinnar betur.

Heimild: Cosmopolitan

Þessi lætur það eftir sér!
Þessi lætur það eftir sér! mbl.is/colourbox
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert