Íslenskt fyrirtæki með kaffibolla úr endurunnum kaffikorg

Góður kaffibolli er nauðsynlegur og flest harðkjarna kaffidrykkjufólk á sitt fjölnota kaffimál sem það hefur ætíð með í för. Nú hafa íslenskir þremenningar stigið skrefinu lengra og kynna til sögunnar Umhverfismálið sem unnið er úr endurunnum kaffikorgi.

„Umhverfismálið hefur það að markmiði að útrýma einnota kaffimálum á Íslandi. Við trúum því að samfélagsleg ábyrgð og sjálfbærni séu lykillinn að grænni framtíð og sækjum innblástur í hringrásarhagkerfið,“ segja þeir Sindri Már Hannesson, Skúli Bragi Geirdal og Elís Orri Guðbjartsson sem eru mennirnir á bak við Umhverfismálið. Sindri er með meistaragráðu í viðskiptum frá ESADE-háskólanum í Barcelona, Skúli er grafískur hönnuður og dagskrárgerðarmaður á N4 og Elís Orri er með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá London School of Economics. Bakgrunnur þeirra er því ólíkur en samlegðaráhrifin henta vel verkefni sem þessu.

Þeir félagar segja mikilvægt nú sem aldrei fyrr að fólk sýni samfélagslega ábyrgð og hlúi að umhverfinu. Framtíðin sé ekki einnota og mikilvægt sé að temja sér þann þankagang.

„Umhverfismálið, sem er búið til úr endurunnum kaffikorgi ásamt öðrum náttúrulegum bindiefnum, er eins umhverfisvænt og það gerist og því „umhverfismál“ í orðsins fyllstu merkingu, segja þeir og bæta því við að það sé allt öðruvísi upplifun að drekka kaffið úr Umhverfismálinu. „Upplifunin er hreinlega allt önnur, og mikið umhverfisvænni. Ímyndaðu þér að drekka kaffi úr kaffi. Kaffimálið sem þú drekkur úr var eitt sinn kaffið í kaffibollanum þínum,“ segja þeir en Umhverfismálið er famleitt í Berlín af litlu nýsköpunarfyrirtæki sem einblínir á að framleiða vörur sem stuðla að hringrásarhagkerfinu. Kaffikorgurinn, sem er aðaluppistaðan í Umhverfismálinu, sækja þau á hjólum hjá nærliggjandi kaffihúsum. Umhverfisþáttum er því gert eins hátt undir höfði og mögulegt er við framleiðsluna.

Til að binda saman kaffikorginn eru notaðar niðurbrjótanlegar líffjölliður (e. biopolymers) sem eru unnar úr beðmi, sterkju, viði, náttúrulegri kvoðu og olíum. Því er bindiefnið algjörlega laust við alla hráolíu, melamínkvoðu eða plastagnir. Umhverfismálið má setja í uppþvottavél, er 100% endurvinnanlegt og brotnar niður í náttúrunni.

Hægt er að kaupa Umhverfis málið HÉR og kostar það 3.590 kr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »