Íslenskt súkkulaðismjör slær Nutella út í prófunum

mbl.is/

Einn stærsti matarvefur Dana, Madens Verden, fékk nýlega nokkra einstaklinga til að smakka, meta og gera úttekt á súkkulaðismjöri frá nokkrum framleiðendum. Hið sykurlausa Choco Hazel-súkkulaðismjör frá íslenska fyrirtækinu Good Good bar þar sigur úr býtum.

Um 1,5 milljónir manna heimsækja vef Madens Verden í hverjum mánuði og í fjölda ára hefur verið framkvæmt og fjallað um smakk á ýmiss konar matvöru á vefsvæðinu. Þá eru einstaklingar fengnir til að bragða í blindni vörur frá mismunandi framleiðendum og velja sigurvegara út frá upplifun sinni af bragði og áferð.

Átta súkkulaðismjörstegundir komu til greina í þessari smökkun og var Choco Hazel frá Good Good það eina sem fékk fullt hús stiga – fimm stjörnur. Í öðru sæti varð hið heimsfræga og vinsæla súkkulaðismjör frá Nutella. Munurinn á þeim tveimur er sá að Good Good framleiðir eingöngu sykurlausar vörur.

„Súkkulaðismjör Good Good hefur gott og ferskt bragð, góða blöndu af heslihnetum og kakói. Smjörið er hæfilega sætt en um leið með léttan saltkeim sem skapar virkilega gott jafnvægi í bragðinu. Áferðin er ljúffeng og rjómalöguð,“ segir í niðurstöðum dómnefndar Madens Verden.

Good Good var stofnað árið 2015 og hefur sérhæft sig í matvælum með náttúrulegum sætuefnum í stað sykurs.

Garðar Stefánsson, einn stofnandi og framkvæmdastjóri Good Good, segir þetta að sjálfsögðu gríðarlega mikilvæga viðurkenningu fyrir fyrirtækið. „Okkar markmið hefur alltaf verið að búa til sykurlausa matvöru sem er betri en þær sem innihalda mikinn sykur. Það að vera betri en Nutella í blindprófun í Danmörku er staðfesting á því að við erum standa okkur í vöruþróun og styrkir auðvitað stöðu okkar sem sykurlaust matvælamerki á markaði í Danmörku. Good Good leggur nefnilega áherslu á að það sem er gott fyrir heilsuna geti líka verið gott á bragðið,“ segir hann.

Vörur Good Good hafa notið mikilla vinsælda í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada og hefur fyrirtækið vaxið ört á undanförnum misserum. Sultur fyrirtækisins komust meðal annars í efsta sæti á lista Amazon yfir mest seldu sulturnar þar í landi, sem og Keto Bar-vörur fyrirtækisins, en þær eru í fyrsta sæti yfir heilsubitavörur á Amazon í Bretlandi.

Garðar Stefánsson, einn stofnandi og framkvæmdastjóri Good Good
Garðar Stefánsson, einn stofnandi og framkvæmdastjóri Good Good mbl.is/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert