Eldrautt eldhús heima hjá Felix og Baldri

Felix og Baldur tóku djarfa ákvörðun þegar kom að vali …
Felix og Baldur tóku djarfa ákvörðun þegar kom að vali á eldhhúsinnréttingu sem sannarlega vekur athygli. mbl.is/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Við látum ekki stórkostleg eldhús framhjá okkur fara og þetta hér vakti áhuga okkar samstundis – enda eins rautt á litinn og hugsast getur.

Það verður ekki hjá því komist að vilja vita meira um eldhúsið hjá fjölmiðlamanninum Felix Bergssyni og Baldri Þórhallssyni, sem hafa komið sér vel fyrir í Vesturbænum. Þeir tóku djarfa hugmynd og hleyptu henni í framkvæmd – meira en margir myndu þora að gera í svo stóru rými sem eldhúsið er.

Við náðum tali af Felix sem segir eldhúsið vera opið og bjart, og hér taka húsráðendur vel á móti gestum sínum á góðum stundum með kampavínsglas í hendi – enda dugar ekkert minna fyrir þetta glæsilega eldhúsrými.

Hvað getur þú sagt okkur um stórkostlega eldhúsið ykkar?

Við keyptum húsið af foreldrum mínum og ákváðum strax að gera breytingar. Eldhúsið var stærsta aðgerðin og við biðum í nokkur ár á meðan við veltum fyrir okkur hvað við vildum gera. Við fórum í marga hringi með þetta og áttum svefnlausar nætur í mælingum og pælingum. Um 2010 réðumst við í verkið, opnuðum hæðina upp til suðurs með því að taka niður vegg og fórum svo í samstarf við Brúnás innréttingar um að hanna þetta fallega eldhús fyrir okkur. Eyjan varð grundvallaratriði og hefur orðið einhvers konar miðpunktur í húsinu. Vinur okkar Örn Guðmundarson arkitekt í París benti okkur á möguleikann á skærum litum og nýrri hönnun inni í gömlu rými og það varð leiðarljós í þessu. Rauði liturinn er ákaflega upplífgandi og fallegur og hefur bara glatt okkur og gesti okkar á þessum 10 árum sem eldhúsið hefur staðið,“ segir Felix.

Þetta er eina eldrauða eldhúsið sem við höfum séð hér á landi – vitið þið um fleiri? 

„Nei, við höfum ekki séð svona eldhús hér heima en þekkjum viðlíka hugmyndir frá Evrópu.“

Liturinn rauður er táknrænn fyrir kærleika og ýtir undir sterkar tilfinningar, t.d. ástríðu og spennu – myndir þú segja að eldhúsið ýtti undir ástríðu í matargerð? 

„Já, ekki spurning! Það er mjög gaman að elda í þessu eldhúsi. Aðalmálið er nú kannski að það er mjög þægilegt og opið, og fullt af góðum vinnuflötum. Það skiptir miklu máli. Mér hefur aldrei fundist eins gaman að elda og eftir að við fengum þetta eldhús.“

Hver stendur oftast á bak við pottana í eldhúsinu á ykkar heimili?

„Ég elda oftast en það er nú ekki vegna þess að ég sé einhver listakokkur. Held bara að ég sé frekari.“

Hver er þinn uppáhaldsréttur? 

„Ég elska ceviche-lúðusalat með lime og rauðlauk. Það er svo dásamlega ferskt og kemur gestum oft svo skemmtilega á óvart. Við eldum langoftast fisk eða kjúkling, en reynum að forðast rautt kjöt.“

Hvað er það besta við eldhúsið? 

„Það besta er sjálfsagt hversu opið það er þrátt fyrir að rýmið sé alls ekki svo mikið. Það er líka svo bjart og fallegt, sérstaklega að morgni  er mjög upplífgandi og veitir mikla vellíðan."

Takið þið oft á móti gestum  er þetta partíeldhús?

Já, þetta er besta partíeldhúsið og okkur finnst ekkert skemmtilegra en að bjóða góðu fólki til okkar. Við byrjum nær undantekningalaust við eyjuna og skálum við gesti okkar í kampavíni. Það gerir gott partí bara betra.“

Nú nálgumst við jólahátíðina – fer eldhúsið í meiri jólabúning en fyrir er? 

„Við erum mikil jólafjölskylda og eldhúsið leikur lykilhlutverk, enda rauði liturinn mjög „jólalegur“. Við skreytum oft heilmikið og leyfum stemningunni að ráða í því. Hlýjar rauðar jólaseríur eru ráðandi í stofurýminu á hæðinni og kallast þar með á við eldhúsið. Einhvern veginn grunar mig að það verði extra mikið skreytt í ár til að lyfta andanum. Ekki veitir af.“

Eitthvað annað sem þið viljið koma á framfæri?

„Við hvetjum fólk til að þora að prófa hugmyndir sínar þótt þær virki flippaðar og ræða þær við þá söluaðila sem þið eruð að vinna með. Við fengum frábærar viðtökur hjá Brúnási og þau voru tilbúin að fara í þetta ævintýri með okkur, finna með okkur litinn og hönnunina sem hentaði. Þetta varð draumasamstarf. Okkur finnst bæði gaman og mikilvægt að vinna með íslenskum fyrirtækjum að verkefnum sem þessu.“

Innréttingin er smíðuð af Brúnás sem tóku fullan þátt í …
Innréttingin er smíðuð af Brúnás sem tóku fullan þátt í þessu ævintýri - að skapa eldrautt eldhús. mbl.is/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
mbl.is/Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
mbl.is