Bryti drottningar deildir leyndarmálinu á bak við hinn fullkomna gin og tónik

Í dag (19. október) er hinn árlegi alþjóðlegi gin og tónik-dagur. Þessi drykkur er tengdur órjúfanlegum böndum við breska menningu.

Sagan segir að hann hafi orðið til þegar fulltrúar breska heimsveldisins á Indlandi freistuðu þess að gera sér inntöku kínins bærilegri í baráttunni við malaríu. Til að bragðbæta kínínið blönduðu þeir því út í það sykri og sódavatni, úr varð tónik og innan skamms bættu þeir við gini til að gera drykkinn enn betri.

Tónik er einmitt í lykilhlutverkinu í þessum sígilda drykk og í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að það hvaða tegund af tónik er notuð skiptir sköpum um hvernig blandan bragðast. Nútímalegt og létt gin krefst allt öðruvísi tóniks en gömlu einiberjatrukkarnir Gordon og Beefeater.

Þumalputtareglan er einföld.

Léttara ginið þarf létt tónik en trukkarnir kröftugra. Ef jafnvægið er ekki rétt mun annar hlutinn stíga á tærnar á hinum.

Íslenska ginið Ólafsson er dæmi um léttara einiberjagin sem bragðast best með til dæmis Fentiman's Conoisseurs-tónikinu eða Fever Tree-tónikinu, þessu með klassíska gula miðanum. Gordons og Beefeater er aftur á móti best með bragðmiklu tóniki, til dæmis Fentiman's Premium eða Schweppes.

Að sögn fyrrverandi bryta Elísabetar Englandsdrottningar er uppskriftin að hinum fullkomna gin og tónik svona:

Takið hátt glas, fyllið það af klaka sem kemur beint úr frysti (ekkert vatnsbragð!), hellið gini yfir (magn eftir smekk), kreistið örlítið af sítrónu eða límónu yfir og hendið sneiðinni í glasið, hellið svo tónik rösklega yfir svo það myndist mikið af loftbólum því þá blandast öll innihaldsefnin fullkomlega saman og óþarfi að hræra.

Drekkist hratt áður en klaki bráðnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert