Innbakað ostafjall sem ærir bragðlaukana

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Það er fátt sem toppar þennan innbakaða ost sem er löðrandi í alls kyns dásemdum. Hinn fullkomni réttur í saumaklúbbinn ... eða fyrir sjónvarpskvöldið.

Uppskriftin kemur frá hinni einu sönnu Berglindi Hreiðars á Gotteri.is

Innbakað ostafjall

 • 1 x Dala-Auður
 • 2 smjördeigsplötur (keypti frosnar frá Findus, 5 í pakka)
 • 1 pera
 • 80 g pekanhnetur
 • 3 msk. púðursykur
 • 1 egg (til að pensla með)

Aðferð:

 1. Affrystið smjördeigsplöturnar og undirbúið annað á meðan.
 2. Afhýðið peruna og skerið í litla teninga, saxið pekanhneturnar gróft.
 3. Setjið perur og púðursykur í pott og hitið við miðlungshita þar til sykurinn er bráðinn og perurnar aðeins farnar að mýkjast, hrærið þá pekanhnetunum saman við.
 4. Setjið smjördeigsplöturnar þétt hlið við hlið og fletjið þær aðeins út og klemmið saman á samskeytunum.
 5. Flytjið smjördeigið yfir í eldfast mót, setjið um helminginn af perublöndunni á miðjuna, næst ostinn sjálfan þar ofan á og síðan restina af perublöndunni ofan á ostinn.
 6. Pakkið þessu þá öllu óreglulega inn með smjördeiginu en skiljið eftir op á toppnum.
 7. Pískið eggið og penslið deigið, bakið í 200°C heitum ofni í um 15 mínútur eða þar til deigið gyllist.
 8. Berið fram með góðu kexi eða brauði.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is