Ákváðu að opna sinn eigin banka

Auðvelt er að ná sér í gjaldeyri í Gleðibankanum en …
Auðvelt er að ná sér í gjaldeyri í Gleðibankanum en Jói segir best að óska eftir tilboði fyrir sinn hóp og því verði svarað hratt og vel. Áhugasamir geta sent tölvupóst á gledikronur@gledipinnar.is og eins er hægt að kynna sér nýja bankann og gjaldmiðilinn frekar á vefsíðunni, www.gledipinnar.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar American Style, Saffran, Hamborgarafabrikkan, Keiluhöllin, Shake&Pizza, Blackbox, Eldsmiðjan, Aktu taktu og Pítan sameinuðust undir nafni Gleðipinnar í vor varð til ein stærsta veitingastaðakeðja landsins. Jóhannes Ásbjörnsson tók sér sæti í brúnni og ekki var annars að vænta en spennandi árs með nýjum og spennandi áskorunum.

Skjótt skipast veður í lofti og í mars voru komnar upp aðstæður sem enginn hefði getað séð fyrir. Síðan þá hafa fyrirtæki í veitingageiranum mörg hver róið lífróður en Jóhannes segir að það sé styrkur Gleðipinna hversu fjölbreytta veitingastaði fyrirtækið hefur og þegar á móti blási sé lítið annað í boði en að gefa vel í og reima á sig takkaskóna.

Nú hafa Gleðipinnar opnað sinn eigin banka þar sem gjaldmiðillinn heitir gleðikrónur og er þeim ætlað að efla andann og seðja hungur landsmanna. „Þetta er í raun fullkomlega rökrétt ákvörðun. Við ákváðum að það væri bráðsnjallt í þessu ástandi að opna banka og gefa út okkar eigin gjaldmiðil,“ segir Jóhannes brosandi og er greinilega hæstánægður með framtakið. „Þetta er Gleðibankinn – engir gulir miðar og þú tekur bara út en leggur ekkert inn.

Að öllu gríni slepptu þá höfum lengi gælt við þá hugmynd að finna leið til þess að viðskiptavinirnir gætu valið á milli allra okkar staða því styrkleikar okkar felast ekki síst í því hvað fjölbreytnin er mikil. Við vildum líka hafa þetta skemmtilegt í leiðinni og það má segja að þetta sé mjög falleg peningaútgáfa,“ segir Jói og tekur fram að það sé engin leið að ruglast á gleðikrónum og hefðbundnum peningum.

Nú þegar séu gleðikrónurnar komnar í töluverða dreifingu. „Fyrirtæki hafa verið að nýta sér þetta til að gleðja og hvetja starfsfólk sitt. Það hefur mikið mætt á fólki, mikið rót og álag og það er ánægjulegt að sjá hvað mörgum fyrirtækjum hefur verið umhugað um að hlúa að starfsfólki sínu og verðlauna það. Svo fer að bresta á með jólagjafakaupum og ljóst að samfélagsleg ábyrgð er fyrirtækjum hugleikin og því leitast þau við að styrkja önnur fyrirtæki í greinum sem eiga undir högg að sækja núna. Mér finnst ótrúlega fallegt að sjá hvernig erfiðleikar sem þessir kalla fram það besta hjá fólki,“ segir Jóhannes sem almennt er talinn með jákvæðari mönnum.

„Ég tamdi mér þá reglu að finna mér eitthvað til að vera þakklátur fyrir á hverjum morgni. Hugarfarið skiptir svo gríðarlega miklu máli og ég hef alveg þurft á því að halda eins og sjálfsagt flestir,“ segir Jóhannes og kveðst afar þakklátur fyrir teymið í kringum sig. „Mér finnst magnað hvað fólk sýnir sínar bestu hliðar. Það er svo auðvelt að detta í neikvæðni og vonleysi en það er oft þannig að þegar á móti blæs koma bestu eiginleikar fólks í ljós og þá sést hvað kjarninn í teyminu er sterkur. Við erum sannarlega að upplifa það hjá okkur og fyrir það er ég gríðarlega þakklátur.“

Jói segir að veitingabransinn finni sérstaklega mikið fyrir toppunum á bylgjunum. Það sé þá sem reyni á úthaldið en óvissan sé versti óvinurinn. „Við vonum að bóluefnið komi sem fyrst þannig að lífið komist í eðlilegt horf. Við erum alveg til í að fá nokkuð eðlileg jól og áramót. Ég væri alveg til í kvitta upp á það hér og nú,“ segir Jói og vonast – eins og sjálfsagt flestir – eftir því að bóluefni komi sem fyrst á markað „og við getum siglt inn í næsta sumar af dálitlum krafti. Það væri falleg tímalína ef hún myndi standast“, segir Jói að lokum og það er ekki annað hægt en taka undir það.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert