Kleinuhringirnir sem Elenora Rós elskar

Þessir dásemdar vatnsdeigs-kanilkleinuhringir koma úr smiðju Elenoru Rósar sem var að gefa út bókina BAKAÐ með Elenoru Rós. Hér deilir Elenora uppskriftinni sem hún segir að sé í algjöru uppáhaldi hjá sér.

„Svona kleinuhringi smakkaði ég fyrst í uppáhaldsbakaríinu mínu hér á Íslandi. Ég sver ég gat ekki hætt að borða þá, þeir voru svo góðir. Þeir eru enn þann dag í dag mitt helsta uppáhaldsbakkelsi sem er fáanlegt á Íslandi. Ég bjó til mína eigin útgáfu af þeim og var heldur betur sátt. Uppskriftina að vatnsdeiginu má einnig nota á bolludaginn en þá sleppir maður kanilnum og bakar deigið í staðinn fyrir að djúpsteikja það," segir Elenora um þessa uppskrift.

Vatnsdeigskanilkleinuhringir

12 kleinuhringir

  • 150 ml mjólk
  • 150 ml vatn
  • 250 g smjör við stofuhita
  • 10 g DanSukker-sykur
  • 4 g salt
  • 230 g Pillsbury-hveiti
  • 3 g kanill
  • 7 egg
  • ISIO-olía til steikingar
  • Kanilsykur til að velta kleinuhringjunum upp úr

Aðferð:

Byrjið á því að skera bökunarpappír í ferninga.

Setjið mjólk, vatn, smjör, sykur og salt í pott og hitið blönduna að suðu.

Um leið og suðan kemur upp bætið þið hveitinu og kanilnum saman við og ristið massann með því að hræra vel og hratt allan tímann. Massinn er tilbúinn þegar hann byrjar að losna frá hliðunum og er kominn saman.

Þegar massinn er tilbúinn er hann settur í hrærivélarskál og hrærður hratt til að ná mestum hita úr deiginu. Ástæðan fyrir því að deigið er kælt niður áður en eggin eru sett saman við er vegna þess að annars eldast eggin. Gott er að hafa deigið ylvolgt þegar eggin fara saman við.

Þegar deigið hefur verið hrært í smá tíma og er orðið volgt má byrja að bæta einu eggi við í einu, passið að hræra vel á milli og skafa öðru hvoru niður hliðarnar.

Deigið er nú tilbúið og á að vera silkimjúkt og renna fallega en rólega niður.

Setjið deigið í sprautupoka og sprautið hringi á pappírsferningana, sem þið klipptuð í byrjun.

Hitið olíuna í potti upp að 180°C. Þegar olían er orðin vel heit er kleinuhringurinn settur ofan í pottinn með pappírnum. Hann mun losna frá um leið og hann byrjar að steikjast og þá fjarlægið þið pappírinn úr pottinum með töng. Steikið kleinuhringinn þar til hann er orðinn fallega brúnn eða í um 30-60 sekúndur á hvorri hlið.

Takið kleinuhringinn úr pottinum, leggið hann á eldhúspappír og leyfið olíunni að renna af.

Á meðan kleinuhringirnir eru enn þá volgir er þeim velt upp úr kanilsykri og þá eru þeir tilbúnir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert