Kjúklingarétturinn sem toppar föstudaginn!

Ljósmynd/Linda Ben

Hér er á ferðinni uppskrift úr smiðju Lindu Ben. sem er að hennar sögn „ótrúlega bragðmikill, löðrandi í osti og gúmmelaði“.

„Það er best að nota foreldaðar kjúklingabringur og smella öllu saman á létt pönnu, þá tekur þetta enga stund. Það er auðvelt að búa til sína enchiladasósu og algjör óþarfi að fara út í búð sérstaklega að kaupa svoleiðis ef þú átt allt kryddið til að gera hana frá grunni. Sósan er svolítið sterk ein og sér en þegar öllu hefur verið blandað saman á vefjurnar hafa allar bragðtegundirnar blandast svo vel saman og því er rétturinn alls ekki sterkur. Ég mæli með að bera þennan rétt fram með fersku kóríander, grískri jógúrt og kirsuberjatómötum,“ segir Linda Ben. og við hvetjum ykkur svo sannarlega til að prófa.

Kjúklinga-enchiladas

  • 2 kjúklingabringur (foreldaðar)
  • 5 vefjur
  • 400 g mozzarella með piparkryddosti frá Örnu-mjólkurvörum
  • 300 g maísbaunir
  • 400 g nýrnabaunir
  • 1 laukur
  • 1 paprika
  • enchiladasósa (uppskrift hér fyrir neðan)
  • grísk jógúrt frá Örnu-mjólkurvörum
  • ferskt kóríander
  • 100 g kirsuberjatómatar

Enchiladasósa

  • ½ dl ólífuolía
  • 2 msk. hveiti
  • ½ msk. chilíkrydd
  • ½ msk. paprikukrydd
  • ½ tsk. hvítlaukskrydd
  • ¼ tsk. laukkrydd
  • ½ tsk. kummín
  • 500 ml vatn
  • 1 stk. kjúklingakraftur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa sósuna með því að setja ólífuolíu og hveiti í pott. Steikið saman í 1-2 mín til að ná mesta hveitibragðinu úr. Bætið út í kryddunum og hrærið saman. Bætið út á vatni og kjúklingakrafti, hrærið þar til samlagað, látið suðuna koma upp og malla saman í 4-5 mín.
  2. Á meðan sósan er að malla, skerið þá laukinn og paprikuna niður, steikið á pönnu upp úr olíu þar til laukurinn er orðinn glær. Skerið elduðu kjúklingabringurnar niður í bita og bætið út á pönnuna ásamt baununum.
  3. Kveikið á ofninum og stillið á 200°C.
  4. Setjið 2 msk af sósu á hverja vefju og dreifið úr. Skiptið kjúklingablöndunni í 5 hluta og setjið á vefjurnar ásamt 50 g af rifnum osti á hverja vefju. Rúllið upp.
  5. Setjið u.þ.b. 3 msk af sósu í botninn á eldföstu móti og raðið vefjunum í mótið. Setjið u.þ.b. 1 msk af sósu ofan á hverja vefju og dreifið restinni af ostinum yfir. Bakið inni í ofninum í u.þ.b. 20 mín eða þar til osturinn er byrjaður að gyllast.
  6. Berið fram með grískri jógúrt og fersku kóríander.

Ef þú prófar þessa uppskrift þá þætti mér svo vænt um að heyra frá þér! Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og merktu mig á Instagram @Lindaben

Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert