Heineken lækkar í verði um 25% í Vínbúðunum

Ákveðið hefur verið að lækka verðið á Heineken tímabundið þar sem brjórframleiðandinn er einn af stórum styrktaraðilum Meistaradeildarinnar í fótbolta. Í tilkynningu frá Coca-Cola European Partners á Íslandi segir að þetta sé gert til að koma til móts við lokun öldurhúsa og breytta stemningu vegna samkomutakmarkana.

„Margir eru vanir að horfa á leikina með vinahópnum eða á öldurhúsum og því er stemningin svolítið önnur í ár. En það er þó engin ástæða til að breyta öllum venjum sínum – jafnvel þó að enginn horfi með þér, þá eru fleiri að horfa á leikina og mörgum finnst vitaskuld gott að opna einn kaldan yfir boltanum heima. Af því tilefni munum við lækka litlar dósir af Heineken um 25% í ÁTVR tímabundið,“ segir Áki Sveinsson, markaðsstjóri hjá Coca-Cola European Partners á Íslandi. 

„Við viljum hvetja fótboltaáhugafólk til að halda áfram að njóta þess að fylgjast með Meistaradeildinni þrátt fyrir að það þurfi ef til vill að sýna ábyrgð og horfa á leikina heima hjá sér tímabundið. Auðvitað vonumst við til þess að fólki geti hist á öldurhúsum og notið þess að horfa á fótboltann í góðra vina hópi sem fyrst en þangað til það er orðið óhætt hvetjum við fólk til að gæta að sér. Við hvetjum fólk auðvitað líka til að drekka af ábyrgð og í hófi og því var ákveðið að afslátturinn gildi aðeins um 33 ml dósir. Þá erum við einnig að lækka verðið á 33 ml Desperados-flöskum um fjórðung, en hann er einmitt líka framleiddur af Heineken og er bjór með tekílabragði – eitthvað sem allir verða að prófa!“

mbl.is