Vistvæn kaffihylki frá Te & Kaffi

Te & Kaffi hefur hafið framleiðslu og sölu á hágæða kaffi fyrir hylkjavélar, en hylkin eru jarðgeranleg. Til að byrja með býður Te & Kaffi upp á þrjár kaffiblöndur; French Roast, Java Mokka og Espresso Roma.

„Við höfum leitað í nokkur ár að réttu hylkjunum, en við lögðum ofuráherslu á að þau tryggðu rétt bragðgæði, en væru jafnframt umhverfisvæn. Á síðasta ári fundum við loks hollenskt fyrirtæki sem uppfyllir allar okkar kröfur og framleiðir jarðgeranleg og vistvæn hylki, sem búin eru til úr sykurreyr og plöntuleifum og eru niðurbrjótanleg. Nú líta fyrstu hylkin dagsins ljós og við gætum ekki verið ánægðari með útkomuna,“ segir Kristín María Dýrfjörð, eigandi Te & Kaffi.

Kaffihylkin frá Te & Kaffi passa í langflestar gerðir hylkjavéla, til dæmis Nespresso vélar. Þá er öll framleiðsla og flutningur á hylkjunum kolefnisjafnaður að fullu.

„Kaffið er ristað hjá okkur og því er síðan pakkað samkvæmt okkar forskrift og uppfyllir ströngustu gæðakröfur. Viðbrögðin hafa enda ekki látið á sér standa og þeir sem hafa prófað eru hæstánægðir. Ekki skemmir heldur fyrir að hylkin eru vistvæn.“ segir Kristín María.

Kaffihylkin frá Te & Kaffi eru komin í sölu í verslunum Krónunnar, Hagkaupa, Nettó, Fjarðarkaupum og Melabúðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert