Kjúklingur með rjómaosti, chili og sólþurrkuðum tómötum

Ljósmynd/Tinna Alavis

Þessi stórskemmtilegir kjúklingaréttur er úr smiðju Tinnu Alavis og inniheldur rjómaost og sólþurrkaða tómata svo að fátt eitt sé nefnt. Grunsamlega góður...

„Þeir sem eru fyrir hvítlauk, chili pipar og rjómaost ættu að prófa þennan bragðgóða kjúklingarétt! Hann er virkileg einfaldur og fljótlegur. Rétturinn inniheldur einnig blaðlauk, rauða papriku og sólþurrkaða tómata sem gefur honum skemmtilegt og öðruvísi bragð. Með réttinum er til dæmis hægt að bera fram salat, hvítlauksbrauð eða hrísgrjón. Þó svo að rétturinn innihaldi chili þá er hann alls ekki sterkur því rjóminn og rjómaosturinn mildar chili bragðið," segir Tinna um réttinn.

Kjúklingur með rjómaosti, Chili og sólþurrkuðum tómötum

 • 1 bakki kjúklingalundir
 • 250 g grillaðir sólþurrkaðir tómatar
 • 1 rjómaostur með grillaðri papriku og chili
 • 10 cm af blaðlauk
 • 1 rauð paprika
 • 6 stk. kramin hvítlauksrif
 • 500 ml rjómi
 • 50 g íslenskt smjör
 • Salt, pipar og grænmetiskraftur

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C - blástur
 2. Takið fram pott og steikið blaðlauk, hvítlauk og papriku ásamt chili pipar upp úr íslensku smjöri.
 3. Þegar þetta er farið að brúnast örlítið þá er grænmetistening bætt út í.
 4. Takið sólþurrkuðu tómatana úr olíunni og skerið þá smátt. Setjið þá því næst ofan í pottinn.
 5. Setjið rjóman og rjómaostinn síðast og hrærið vel saman.
 6. Raðið kjúklingalundunum í eldfast mót og kryddið með salti + pipar.
 7. Hellið öllu úr pottinum yfir kjúklinginn og eldið í 40 mínútur.

Berið fram með góðu salati, hrísgrjónum eða hvítlauksbrauði.

Ljósmynd/Tinna Alavis
mbl.is