Áfram grímuskylda í Krónunni

Í öllum verslunum Krónunnar verður áframhaldandi grímuskylda, bæði fyrir starfsfólk og viðskiptavini, þrátt fyrir breyttar reglugerðir. Munu þessar reglur gilda til og með 2. desember og verða endurmetnar þá í samræmi við ný tilmæli yfirvalda.

Þessi ákvörðun er tekin til að tryggja öryggi starfsfólks sem og viðskiptavina og setja ekki starfsfólk í þær flóknu aðstæður að meta hverjir þurfi að bera grímur.

Grímuskyldan á við um alla sem fæddir eru 2015 eða fyrr.

„Fjölmargir viðskiptavinir leggja leið sína í verslanir okkar á hverjum degi og við viljum umfram allt tryggja öryggi þeirra og starfsfólks okkar. Einfaldasta leiðin til þess er að halda áfram með grímuskylduna. Við erum þakklát öllum fyrir skilninginn,“ segir Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.

mbl.is