Hagkaup lengir afgreiðslutíma til að dreifa álagi

Kristinn Magnússon

Hagkaup hefur ákveðið að lengja afgreiðslutíma tveggja verslana sinna til að auðvelda viðskiptavinum sínum jólainnkaupin í ljósi áframhaldandi samkomutakmarkana í verslunum. Um er að ræða verslanir Hagkaups í Kringlunni og Smáralind sem verða nú opnar til klukkan 21 á virkum dögum og til klukkan 18 um helgar, frá og með deginum í dag, 19. nóvember.

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, segir að þetta sé einna helst gert til að dreifa álaginu í verslunum og koma frekar í veg fyrir raðir sem gætu myndast á annatímum. Þegar hefðbundin jólaopnun verslunarmiðstöðvanna hefst verður afgreiðslutíminn lengdur í takt við almennan afgreiðslutíma.

„Við teljum ljóst að flest okkar viljum halda jól með öllu því sem hátíðinni fylgir. Á síðustu vikum hefur aðgangsstýring inn í verslanir án efa gert það að verkum að mikil uppsöfnuð þörf er fyrir einstaklinga að komast út og framkvæma það sem fylgir hefðbundnu jólahaldi, þar á meðal matarinnkaup á aðventunni. Við hvetjum alla okkar viðskiptavini til að nýta sér þessa lengingu á afgreiðslutíma og þannig ná að versla inn fyrir jólin án mögulegra þrengsla og öngþveitis. Þá bendum við sérstaklega á að við verslanir okkar í Kringlunni og Smáralind er nóg af bílastæðum og verslanirnar það rúmgóðar að auðvelt er að athafna sig,“ bætir Sigurður við.

Enn sem áður verða verslanir í Garðabæ og Skeifunni opnar allan sólarhringinn. Að sama skapi verða verslanir Hagkaups í Spönginni, á Akureyri og Eiðistorgi opnar frá klukkan átta til 24. Einnig er netverslun Hagkaups alltaf opin þar sem hægt er að kaupa bæði matvöru og leikföng.

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups.
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups.
mbl.is