Gordon Ramsay gaf ungum dreng sjö milljónir til krabbameinsmeðferðar

Gordon Ramsay
Gordon Ramsay

Greint var frá því á dögunum að hinn 14 ára gamli Ben Watkins væri látinn eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Watkins hafði keppt í Master Chef Junior-þáttunum þegar hann var 11 ára gamall og vakið athygli fyrir skelegga frammistöðu.

Watkins missti um svipað leyti báða foreldra sína með sviplegum hætti og ári síðar, eða 12 ára gamall, greindist hann með sjaldgæfa tegund krabbameins.

Sett var af stað söfnun inni á GoFundMe til að greiða fyrir krabbameinsmeðferðina og voru aðdáendur kappans og fyrrverandi keppinautar dugleg að senda honum kveðjur og styðja við bakið á honum.

Tímaritið Variety greindi frá því í dag að einn þeirra sem studdu við bakið á Watkins hefði verið sjálfur Gordon Ramsay, sem gaf í ágúst tæpar sjö milljónir íslenkra króna í söfnunina.

Watkins lést hinn 16. nóvember.

mbl.is