Fimm hlutir sem þú verður að losa þig við strax

Hér er auðvitað um að ræða þumalputtareglur um hvað nauðsynlegt er að losa úr búrskápnum ... fyrr en síðar.

Útrunnar niðursuðudósir: Ótrúlegt en satt þá er síðasti söludagur á niðursuðudósum og í ansi mörgum búrskápum er að finna útrunnar dósir. Þetta er eitt af þessum prinsippatriðum. Ananasdós sem rann út 1993 er ekki að fara að gera neitt fyrir jólafrómasinn og má eiginlega bara fara í ruslið. Munið þó að endurvinna.

Gamalt krydd: Þetta gæti komið einhverjum í opna skjöldu en staðreyndin er sú að krydd skemmist og missir bragðgæðin. Margir halda nefnilega að krydd sé eilífðareign og fara fremur sparlega með það. Það er argasti misskilningur og skilaboð okkar eru að nota kryddið af ástríðu og endurnýja reglulega. Krydd sem keypt var á Costa del Sol árið 2001 er að öllum líkindum orðið frekar lúið.

Olíur sem farnar eru að þrána: Olíur skemmast og skemmdar olíur eru hræðilegar. Flóknara er það ekki og fínar olíur sem búið er að geyma inni í búri svo árum skiptir eru að öllum líkindum löngu búnar að missa bragðgæðin.

Kex og drasl: Einhverra hluta vegna eiga búrskápar það til að geyma kynstrin öll af gömlu og þurru kexi. Hér er um að ræða almenna þurrvöru sem dagar þar uppi og endar á að vera aldrei notuð og taka bara pláss. Losaðu þig við þennan óþarfa. Sjálfrar/sjálfs þín vegna.

Gamalt kaffi: Það er fátt verra en eldgamalt kaffi. Hér þarf ekkert að fjölyrða neitt enda segir það sig sjálft.

Eins og sjá má á þessum lista er nauðsynlegt að fara reglulega í gegnum skápakostinn og hreinsa út. Við erum flest alltof fastheldin á gamalt dót og oftar en ekki hefur maður ekki hugmynd um hvað leynist innst í skápunum. Í kaupbæti færðu léttari lund og nánast áþreifanlega gleðitilfinningu því eins og við könnumst öll við er fátt frábærara en nýþrifnir skápar.

mbl.is