Framleiðir hágæða-gin í Hafnarfirði

„Ég vildi búa til íslenskt gin en ég ekki einhverja túristavöru með víkingum og lundum. Ég vildi frekar vera með gæðavöru og einbeitti mér því að því að tengja hana við sjóinn og strandlengjuna. Svo nota ég söl til að bragðbæta ginið,“ segir Birgir Már Sigurðsson, stofnandi Þoran Distillery ehf.

Birgir framleiðir hið alíslenska gin Marberg sem hefur heillað marga síðustu mánuði og misseri. Framleiðslan er gott dæmi um þá nýsköpun sem hefur blómstrað hér á síðustu árum en ekki endilega farið hátt. Með trú á vörunni og einurð hefur Birgi tekist að skapa henni nafn á veitingamarkaði og nú er hægt að fá Marberg í fjölmörgum vínbúðum. Þá er dreifing hafin á þessu íslenska hágæðagini úti í heimi.

Marberg er af London Dry gin-gerð, sem þýðir að fara þarf eftir ströngum stöðlum við framleiðsluna. Ginið er framleitt í Hafnarfirði og er gert þannig að hlutlaus spíri sem unninn er úr lífrænu hveiti frá Champagne-héraði í Frakklandi er endureimaður í voldugu 500 lítra framleiðslutæki. Hann er svo kryddaður með átta kryddjurtum; einiberjum, sítrónuberki, svörtum pipar, íslenskri hvannarrót, kóríanderfræjum, greipaldini, fjólurót og íslenskum sölvum og blandaður íslensku vatni úr Kaldárbotnum.

Erfitt lagaumhverfi á Íslandi

„Ég var með vissar hugmyndir um hvaða krydd ég vildi nota í ginið. Ég vildi ekkert exótískt, bara gott gin,“ segir Birgir um upphaf framleiðslunnar sem kallaði á mikla rannsóknarvinnu. „Ég gerði fyrst 100 útgáfur og fékk fólk til að smakka þær. Svo fækkaði ég þeim niður í 50 og fékk fagaðila til að smakka þær. Við það var fækkað niður í þrjár útgáfur og ég ákvað sjálfur þá endanlegu. Það krafðist þess að ég þurfti mikið að taka vinnuna með heim og smakka,“ segir Birgir. Þetta var árið 2018 sem „kryddprófíll“ Marbergs var tilbúinn. Í janúar 2019 var varan svo fullbúin að hans sögn. Eftir það hefur hann unnið að því að breiða út fagnaðarerindið ef svo má segja og óhætt er að segja að vel hafi tekist til. Marberg hefur náð fótfestu á okkar litla markaði en Birgir horfir líka út fyrir landsteinana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »