Bretlandsdrottning setur gin á markað

Drottningin er sælkeri mikill og elskar að staupa sig á …
Drottningin er sælkeri mikill og elskar að staupa sig á gini yfir daginn. mbl.is/PA

Elísabet Englandsdrottning er sælkeri mikill og kynnir nú nýtt gin sem inniheldur ávexti og jurtir úr garðinum við Sandringham-kastalann.

Drottningin er þekkt fyrir að fá sér eitt staup í lok hvers dags, og er gin í miklu uppáhaldi hjá hennar hátign sem virðist staupa sig líka fyrir matinn ef marka má heimildir. Og nú geta aðdáendur konungsveldisins fengið að smakka, þar sem ginið er komið í sölu. Ginið kallast „Sandringham Celebration Gin“ og kostar 50 cl flaska rétt um 9.000 krónur íslenskar - og er eimað í búinu í Norður-Norfolk, í takmörkuðu magni.

Þetta er þriðja víntegundin sem er markaðssett af konungsfjölskyldunni. Karl Bretaprins setti einnig nýverið á markað lífrænt Highgrove-gin sem þykir afburðagott. 

Merkingarnar á flöskunni bera að sjálfsögðu hina konunglegu kórónu og státa af því að ginið innihaldi einiberjatóna og sítruskeim. Allur ágóði af gininu rennur til „The Royal Collection Trust“, góðgerðarstofnunarinnar.

Glæsileg nýja ginflaskan frá breska konungsveldinu.
Glæsileg nýja ginflaskan frá breska konungsveldinu. mbl.is/East Anglia News Service
mbl.is