Bragðbesti (aðventu)krans sem bakaður hefur verið

mbl.is/María Gomez

Ef það er einhvern tíma tilefni til að baka aðventukrans þá er það einmitt núna. Þessi dásamlega snilld kemur beint úr ofninum hjá Maríu Gomez á Paz.is og er algjört sælgæti.

mbl.is/María Gomez

Dásamlega bragðgóður pistasíusnúðakrans

Snúðadeig

  • 2,5 dl nýmjólk
  • 15 g pressuger (er alltaf geymt í mjólkur- eða eggjakæli í verslunum)
  • 400 g hveiti
  • 60 g sykur
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 1 tsk. kardimommudropar
  • ½ tsk. fínt borðsalt
  • 80 g smjör við stofuhita
  • Hærið saman 2 msk. af soðnu vatni og 2 msk. af sykri til að pensla á snúðana áður en þeir fara inn í ofn
  • ½ dl flórsykur til að dreifa yfir snúða

Pistasíufylling

  • 35 g pistasíuhnetur án skeljar 
  • 35 g sykur 
  • 160 g Odense-kransakökumarsípan 
  • 10 g hlynsíróp 
  • 2 msk. ananassafi úr ananas í dós eða má líka nota vatn 
  • klípa af grófu salti

Karamellubráð ofan á 

  • 85 g pakki af Odense Karamel Fudge (fæst í bökunardeild á sama stað og marsípanið)
  • 3 msk. rjómi 

Aðferð snúðadeig

  1. Setjið sykur, ger og volga mjólk saman í skál og hrærið, látið standa í 5 mín. 
  2. Setjið hveiti og salt í hrærivélarskál og hrærið saman með króknum 
  3. Bætið svo kardimommum og vanilludropum saman við gerið og mjólkina 
  4. Kveikið á hrærivélinni með hnoðaranum á og hellið gerblöndunni út í 
  5. Hnoðið og látið smjörið í þremur skömmtum út á þar til deigið er búið að hringa sig í fallega kúlu um krókinn
  6. Breiðið stykki yfir skálina og látið hefast í 1 klst. á volgum stað 

Fylling

  1. Setjið pistasíuhnetur og sykur saman í blandara og malið í smátt en ekki of lengi samt, þá verður það að smjöri, best að nota pulse-takkann
  2. Hrærið svo út í marsípanið ásamt saltinu, sírópinu og ananassafanum 

Karamellubráð ofan á 

  1. Setjið allan pokann af Karamellu Fudge í pott og rjómann með 
  2. Bræðið saman en hrærið stöðugt í á meðan
  3. Best er að gera bráðina þegar snúðarnir hafa kólnað 

Samsetning

  1. Sjáið skrefin á myndum hér að neðan
  2. Hitið ofninn á 200°C blástur
  3. Fletjið deigið út í ferning á stærð við bökunarplötu kannski örlítið minni
  4. Smyrjið fyllingunni vel yfir allan ferninginn 
  5. Leggið svo deigið saman eins og ef þið væruð að loka bók nema langsum
  6. Skerið svo þvert yfir deigið eins og 2 cm lengjur með pizzaskera
  7. Það ættu að nást 10-12 lengjur
  8. Skerið svo hverja lengju næstum í sundur nema leyfið henni að hanga saman efst
  9. Vefjið svo tveimur pörtunum hvorum utan um annan og rúllið upp í snúð, sjá mynd
  10. Ef þið viljið gera krans er snúðunum raðað í hring, klesstum hvorum við annan, annars má líka gera bara staka snúða
  11. Penslið næst með sykurvatninu og stingið í ofninn í 13-16 mín.
  12. Takið út og leyfið ögn að kólna en gott er að gera karamellubráðina á þessum tímapunkti
  13. Sáldrið flórsykri gegnum sigti á snúðana þegar þeir hafa kólnað og setjið síðast karamellubráðina yfir
mbl.is/María Gomez
mbl.is/María Gomez
mbl.is/María Gomez
mbl.is/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert