Flíkur sem er harðbannað að setja í þurrkara

Ljósmynd/Colourbox

Þurrkarar geta verið bráðnauðsynlegir en þeir geta jafnframt reynst miklir skaðvaldar og það eru alls ekki allar flíkur eða efni sem þola heimsókn þangað. Á ögurstundu getur forláta kasmírpeysa breyst í smábarnaflík og margir kannast eflaust við að fá dýrindisflíkur í mjög svo vafasömu ástandi eftir þurrkun. 

Það er því gott að hafa það á hreinu að ákveðnar flíkur (og efni) ætti ekki undir nokkrum kringumstæðum að setja í þurrkara:

1. Silki. Sama hversu mikið þú ert að flýta þér þá er það ekki þess virði. Flíkin getur gjöreyðilagst og það viltu ekki.

2. Brjóstahaldarar. Nú kunna margir að vera ósammála en brjóstahaldarar eru engu að síður rándýrar og vandaðar flíkur sem nóg mæðir á svo ekki sé verið að henda þeim inn í hitabeltisstorm. 

3. Nælonsokkabuxur. Sérfræðingar ráðleggja fólki að setja nælon ekki í þurrkara og því ber að hlýða. 

4. Blúndur. Blúndur eru viðkvæmar og þumalputtareglan er að viðkvæmar flíkur eiga ekki heima í þurrkara. Það sama gildir um siffon.

5. Sparikjóllinn þinn. Bara alls ekki. Kannski stendur á miðanum að það megi en það er aldrei áhætta sem borgar sig að taka. Ef flíkin er falleg og vönduð og þig langar að eiga hana um ókomna tíð skaltu hlífa henni við þurrkaranum. 

6. Sundföt. Þurrkunin getur eyðilagt teygjuna í sundfötunum og þá verða þau afskaplega ljót. 

7. Gervileður. Þetta hefði maður nú getað sagt sér en það er víst betra að hafa þetta allt á hreinu. Til öryggis. 

8. Kasmír. Aldrei nokkurn tímann láta þér detta í hug að það sé góð hugmynd að setja kasmírpeysu í þurrkara. Aldrei. 

9. Rúskinn (og leður). Það sama gildir um rúskinn og leður og kasmír hér að ofan. Ef þú ert að íhuga það í fúlustu alvöru þarftu að fara á námskeið í húsmæðraskólanum. 

10. Hlaupaskór. Við höfum fjallað um ágæti þess að stinga íþróttaskóm í þvottavél en það sama á alls ekki við um þurrkarann. Hitinn getur eyðilagt gúmmíið í botninum og teygjuna í skónum og eiginlega bara rústað þeim, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert