Ákvað að gefa út bók í miðju fæðingarorlofi

Ljósmynd/Linda Ben

Einn vinsælasti magarbloggari landsins, Linda Ben, gaf á dögunum úr sína fyrstu bók sem kallast Kökur. Bókin er afar stílhrein og fögur eins og Lindu einni er lagið en matarbloggarar eru kúnstugir karakterar enda þarftu að vera góður kokkur, frábær stíllisti, einstakur uppskriftahöfundur og framúrskarandi ljósmyndari til að dæmið gangi almennilega upp.

Þar er Linda á heimavelli en viðfangsefni bókarinnar - Kökur - er einmitt eitt af hennar helstu áhugamálum en hún segir að í henni sé að finna góða blöndu af nýjum og klassískum kökum og bakkelsi.

„Einnig deili ég mínum helstu ráðum þegar kemur að matarstíliseringu, hvað skuli hafa í huga þegar verið er með veislu og hvernig sé best að mynda baksturinn, svona til að nefna nokkur atriði sem eru tekin fyrir í bókinni," segir Linda.

Ljósmynd/Linda Ben

Það liggur mikil vinna að baki bók sem þessari en Linda segir það hafa verið skrautlega en skemmtilega lífsreynslu. „Ég hef haft þetta bak við eyrað mjög lengi en tímaskortur hefur verið mitt helsta vandamál þar sem við erum búin að vera ansi upptekin í að byggja húsið okkar frá grunni. Ég ákvað að demba mér í þetta verkefni þrátt fyrir að vera í miðju fæðingarorlofi. Það var ansi skrautlegt á köflum og margt í gangi oft og tíðum en alltaf skemmtilegt."

Linda segist oft hafa leitt hugann að því í gegnum árin hvernig bók eftir hana myndi líta út og því hafi hún verið með nokkur mótaða mynd af bókinni þegar hafist var handa.

„Ég lagði gríðarlega mikla vinnu í að velja uppskriftirnar í bókina, en þær eru góð blanda af nýjum og klassískum uppskriftum sem allir geta gert. Eitt af því sem ég lagði hve mest upp úr var að taka fallegar myndir af kökunum, hugsunin var að allir ættu að geta notið sín við að fletta bókinni og látið sig dreyma um góða köku, líka þeim sem finnst bara gaman að skoða og baka jafnvel aldrei," segir Linda um bókina sem má einmitt skilgreina sem stofustáss. 

Ljósmynd/Linda Ben

„Ég lagði líka mikið upp úr að bókin yrði falleg. Ég sjálf elska að kaupa mér bækur sem fara vel hér heima og því var það mikilvægt fyrir mér að búa til bók sem myndi líka virka sem punt upp í hillu, þannig bækur eru líka ósjálfrátt meira notaðar þar sem þær gleymast ekki ofan í skúffu."

Aðspurð segir Linda eiga erfitt að gera upp á milli uppskriftanna í bókinni enda séu þær allar í uppáhaldi. „Uppskriftin sem snertir hvað mest hjartað mitt er samt alveg örugglega bananarúllan hennar Ömmu Dúu. Ég man eftir mér sem barn að hjálpa ömmu Dúu við að baka þessa köku og ég man svo vel hversu góð mér fannst hún, og finnst enn. Hún er líka svo einföld og fljótleg, ég hef ekki ennþá hitt þá manneskju sem þykir hún ekki æðisleg."

Skemmtilegast þykir Lindu að búa til eitthvað nýtt og segir hún nánast sama hvað það sé. „Ég elska að þróa uppskriftir áfram, prófa eitthvað öðruvísi sem ég er viss um að bragðist vel, það skemmtilegasta er svo að leyfa fólki að smakka og sjá viðbrögðin. Stundum eru þau mjög góð, stundum ekki svo þá veit ég að ég þarf að halda áfram að vinna uppskriftina."

Ljósmynd/Linda Ben

„Það að sjá bókina loks tilbúna var mögnuð tilfinning. Ég lagði svo hart að mér að gera bókina eins fallega og góða og hægt var, það var mjög erfitt að stoppa og senda hana frá mér. Ég tók nokkuð margar myndir aftur eftir að við kláruðum að mynda allt fyrir bókina og á því nokkrar mismunandi myndir af hverri köku. Það sama má segja með uppskriftirnar, ég á nokkrar útfærslur af sumum uppskriftunum. Eftir að ég sendi bókina frá mér og ekkert hægt að gera lengur fékk ég stundum kvíðahroll um að eitthvað hefði misfarist. Það að fá svo bókina í hendurnar og sjá hana svona fallega var draumi líkast! Það var mikill léttir að halda á bókinni og finna fyrir stolti."

Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert