Nettó veitir 44 milljónir króna til góðgerðarmála

Ljósmynd/Aðsend

Rúmlega 10 milljónir króna söfnuðust í góðgerðarátakinu Notum netið til góðra verka sem lágvöruverðsverslunin Nettó stóð fyrir í nóvember. Átakið fól í sér að 200 krónur af hverri pöntun úr netversluninni runnu til góðgerðarmála. Það kom svo í hlut viðskiptavina að velja málefni til að styrkja og bárust yfir 2.000 tillögur.

Í heild hefur Nettó veitt um 44 milljónir króna til góðgerðarmála í ár. „Við hleyptum átakinu Notum netið til góðra verka af stað til að koma til móts við þá sem minnst mega sín. Meirihluti af styrkjunum rennur til samtaka eins og Fjölskylduhjálpar Íslands og annarra samtaka sem sjá um matargjafir. Á sama tíma styðjum við önnur brýn málefni eins og Ljósið og Píeta-samtökin,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

Verum afskaplega þakklát þeim ótrúlega fjölda viðskiptavina sem kusu hvaða málefni ætti að styrkja. Það er greinilegt að hugur fólks er hjá þeim sem þurfa á því að halda og okkur þótti afar vænt um þann fjölda ábendinga sem okkur barst.“

Söfnunarféð úr Notum netið til góðra verka var veitt ýmsum góðgerðarfélögum við hátíðlega athöfn í Nettó Mjódd í dag í tilefni Nettódagsins. Fulltrúar flestra góðgerðarsamtakanna mættu til að veita þeim viðtöku en sökum Covid-19-faraldursins var umfangið minna en síðastliðin ár.

Eftir að styrkjunum hafði verið dreift kynnti Gunnar samfélagsstefnu Nettó fyrir næsta ár auk þess að líta yfir árið sem er að líða. Við leggjum áherslu á samfélagslega ábyrgð í allri starfsemi okkar sem endurspeglar metnað fyrirtækisins til að vera traustur og virkur þátttakandi í samfélaginu.

Á sama tíma kynntum við umhverfisstefnu Nettó en hún snýr að því að vera leiðandi í umhverfismálum á smásölumarkaði og stuðla að sjálfbærni í dagvöruverslunum. Okkur tókst vel til á árinu sem er að líða og má til dæmis nefna það að við höfum minnkað notkun á einnota plastpokum um 500 þúsund á milli ára. Það má hins vegar alltaf gera betur og við hlökkum til að takast á við næsta ár af enn meiri krafti,“ segir Gunnar Egill.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman