Skipta alfarið yfir í endurunnið plast

Ljósmynd/Aðsend

Allar plastflöskur sem Coca-Cola á Íslandi framleiðir verða úr 100% endurunnu plasti (rPET) frá og með fyrsta ársfjórðungi 2021, að því að fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu. 

„Við erum einn stærsti matvælaframleiðandi landsins en því fylgir skylda og ábyrgð. Með því að skipta yfir í rPET fer notkun á nýju plasti niður um 530 tonn (86%) á hverju ári og minnkar kolefnafótspor framleiðslunnar vegna plastflaskna um sem nemur ígildi 400 tonna af koltvísýringi (CO2),“ segir Einar Snorri Magnússon, forstjóri Coca-Cola European Partners á Íslandi, og á breytingin við um allar plastflöskur í öllum vörumerkjum sem fyrirtækið framleiðir á Íslandi. „Það var markmið okkar að ná rPET úr 25% upp í 50% fyrir árið 2025 en við höfum flýtt því markmiði samhliða þátttöku í Net Zero 2040-áætluninni hjá Coca-Cola European Partners (CCEP), sem verður einnig kynnt í dag. Þessi skipti yfir í 100% endurunnið plast er stórt skref fram á við í átt að hringrásarhagkerfinu. rPET, sem er hluti af hringrásarhagkerfi, getur haft minna kolefnisfótspor en nokkrar aðrar umbúðategundir fyrir drykki.“

Sjálfbærni í forgangi

„Við höfum unnið ötullega að því að gera umbúðir okkar umhverfisvænni á undanförnum árum. Meðal aðgerða hefur verið að létta plastflöskur, sem sparaði plastnotkun um 6-14%, nota léttari tappa, sem sparaði um sex tonn af plasti á ári, og skipta út pappír fyrir plast í ytri umbúðum. Þá fer allt plast sem fellur til við framleiðslu eða rekstur okkar til Pure North í Hveragerði sem endurvinnur plastið með umhverfisvænum orkugjöfum þar sem jarðvarmi er í aðalhlutverki,“ útskýrir Einar Snorri.  

Net Zero 2040 áætlun CCEP er metnaðarfull, með skýrum markmiðum og dagsetningum. Þar má nefna að draga á úr heildarlosun gróðuhúsalofttegunda þvert á alla aðfangakeðjuna um 30% fyrir árið 2030, þ.m.t. losun skv. umfangi 1, 2 og 3 (bein og óbein losun), en miðað er við grunnár 2019. Þá er stefnt á að fyrirtækið verði kolefnishlutlaust fyrir árið 2040, í samræmi við Parísarsamkomulagið um að ná að halda hlýnun jarðar undir 1,5˚C. Þess má einnig geta að Coca-Cola á Íslandi er í samstarfi við sérfræðinga hjá Klöppum sem aðstoða fyrirtækið við gerð nákvæms kolefnisbókhalds.

Alþjóðleg skuldbinding um að endurvinna plast

Endurvinnslan ehf. sér um að senda allar plastumbúðir sem safnast til endurvinnslu erlendis. Hollenska fyrirtækið Morssinkhof kaupir plastið og selur það endurunnið til umbúðabirgja okkar þar sem það verður að flöskum úr endurunnu plasti. 

Skiptin yfir í endurunnið plast eru hluti af sjálfbærnistefnu CCEP og The Coca-Cola Company í Vestur-Evrópu, Áfram veginn (e. This is Forward), þar sem fyrirtækin heita því að tryggja að a.m.k. 50% af plastflöskunum verði úr rPET. Átakið hefur nú verið stóreflt og nýtt markmið er að engar plastflöskur verði framleiddar úr nýju plasti innan áratugar. „Við verðum eitt af fyrstu löndunum til að ná þessu markmiði ásamt Noregi, Svíþjóð og Hollandi, en til þess að þetta sé mögulegt þurfa lönd að uppfylla ákveðnar grunnforsendur, til að mynda að endurvinnsluhlutfall sé hátt og endurvinnslan sjálf sé skilvirk,“ útskýrir Einar Snorri og bætir við að plast geti verið sjálfbær umbúðakostur ef því er safnað og það endurunnið í hringrásarhagkerfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert