Rjúpu uppskriftin sem Úlli Finnbjörns eldar á aðfangadag

Kristinn Magnússon

Matreiðslumeistarinn Úlfar Finnbjörnsson þykir flestum fremri þegar kemur að matreiðslu á villibráð. Bækur hans hafa notið gríðarlegra vinsælda meðal landsmanna og eru uppskriftir hans í hávegum hafðar.

Sjálfur segist Úlfar alltaf nota hefðbundnu aðferðina á jólarjúpuna því hann sé alinn upp við hana en hér deilir hann uppskrift að hefðbundinni rjúpu eins og hann borðar sjálfur alltaf á aðfangadag.

Úlfar Finnbjörnsson
Úlfar Finnbjörnsson Kristinn Magnússon

Rjúpa á gamla mátann

Fyrir 4

  • 4 stórar skoskar rjúpur, stærri og eldri gerðin
  • salt og nýmalaður pipar
  • 4 msk. olía
  • vatn þannig að fljóti yfir fuglana
  • sósujafnari
  • 1 - 1 ½ dl rjómi
  • 1 msk. rifsberjahlaup
  • 1 tsk. gráðostur

Aðferð:

  1. Kryddið fuglana með salti og pipar og steikið í vel heitum potti á öllum hliðum í 4-5 mínútur. eða þar til fuglinn er orðinn gullinbrúnn.
  2. Bætið þá vatni í pottinn og hleypið suðunni rólega upp.
  3. Veiðið þá sora og fitu af soðinu.
  4. Sjóðið við vægan hita í 1 ½ klukkustund.
  5. Sigtið þá soðið í annan pott og sjóðið það niður um 1/3 .
  6. Þykkið soðið með sósujafnara og bætið rjóma, rifsberjahlaupi og gráðosti í sósuna.
  7. Smakkið til með salti og pipar.
  8. Berið rjúpuna fram með sósunni, Hasselback-kartöflum, Waldorfsalati, berjasoðnum perum og t.d. gljáðum beðum og soðnu spergilkáli.

Hasselback-kartöflur

  • 4-6 bökunarkartöflur
  • 30-50 g smjör, brætt
  • salt og nýmalaður pipar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 190°C.
  2. Skerið vel af báðum endanum á kartöflum og skrælið þær með hníf þannig að þær verði 6-8 kanta.
  3. Skerið þvert ofan í kartöflurnar með 2 mm millibili, niður í hálfa kartöfluna.
  4. Þerrið kartöflurnar og setjið þær í ofnfast form.
  5. Penslið þær með smjöri og kryddið með salti og pipar.
  6. Bakið í 35 mínútur.

Berjasoðnar perur

  • 2 perur, skrældar og kjarnhreinsaðar
  • 1 poki frosin blönduð ber
  • ½ dl rauðvín
  • 1 msk. berjasulta

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í pott og hleypið suðunni upp.
  2. Sjóðið við vægan hita í 3-5 mínútur eða þar til perurnar eru orðnar mjúkar.

Waldorfsalat

  • 2 græn epli, afhýdd, kjarnhreinsuð og skorin í bita
  • 1 sellerístöngull, skorinn í þunnar sneiðar
  • 1 dl sýrður rjómi
  • 2-3 msk. majónes
  • 1 tsk. sítrónusafi
  • ½ tsk. ljóst edik
  • 1 tsk. sykur, má sleppa
  • ¼ tsk. salt
  • 1 dl rjómi, þeyttur
  • 40 g valhnetur, gróft saxaðar
  • steinlaus vínber, skorin til helminga

Aðferð:

  1. Setjið allt nema rjóma, valhnetur og vínber saman í skál og blandið vel saman.
  2. Fellið rjómann varlega saman við.
  3. Skreytið með valhnetum og vínberjum.
  4. Best er að laga salatið samdægurs.

Hægt er að nálgast blaðið HÉR.

Uppskriftina - ásamt fjölda annarra frábærra jólauppskrifta er að finna …
Uppskriftina - ásamt fjölda annarra frábærra jólauppskrifta er að finna í Hátíðarblaði Morgunblaðisins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert