Höskuldur steikti 15 þúsund laufabrauðskökur fyrir jólin

Höskuldur Gunnlaugsson stofnaði fyrirtækið Gamli bakstur og handgerir ekta íslensk …
Höskuldur Gunnlaugsson stofnaði fyrirtækið Gamli bakstur og handgerir ekta íslensk laufabrauð sem seld eru í verslunum Hagkaups. mbl.is/Mynd aðsend

Laufabrauð er ómissandi á aðventunni að okkar mati. Nú getur þú fengið ekta íslenskt handskorið laufabrauð – alveg eins og í gamla daga.

Hann heitir Höskuldur Gunnlaugsson, rísandi fótboltastjarna í meistaradeild karla hjá Breiðabliki – og frumkvöðull að því að setja ekta handgert laufabrauð á markað sem er fáanlegt í verslunum Hagkaups. Höskuldur er einnig að ljúka háskólanámi í viðskiptafræði við HR og hefur því haft í nógu að snúast við að skera út kökur samhliða því að taka lokaprófin. Hann stofnaði fyrirtæki í september síðastliðnum sem kallast Gamli bakstur – og ef marka má viðtökurnar sem laufabrauðskökurnar hans hafa fengið er nokkuð ljóst að Höskuldur er kominn með árstíðarbundið verkefni héðan í frá.

Við ræddum við Höskuld, sem sagði okkur að uppskriftin kæmi frá ömmu hans á Eiði á Langanesi, en það hefur verið hefð hjá fjölskyldunni að gera laufabrauð á aðventunni. Hér er einungis verið að bretta og fletta, því ekkert rúllujárn er notað til verksins. „Ég fékk þessa hugdettu fyrir jólin í fyrra, en ég þekki ekkert annað en heimagert laufabrauð og langaði að bjóða upp á gæðakökur á gamla mátann. Ég hef haft aðsetur í leigueldhúsi hjá Eldstæðinu, þar sem öll framleiðslan fer fram,“ segir Höskuldur.

Höskuldur segist nota lífrænt heilhveiti og laufabrauðið afhendist í umhverfisvænum pappaöskjum. Hann vill sporna við matarsóun og selur því einnig afskorninga úr laufabrauðinu, sem einnig eru steiktir, en um 30% af deiginu fer iðulega til spillis, nema núna.

Aðspurður segir hann mynstrin vera fimm talsins á laufabrauðunum   jólastjarnan, vonarstjarnan, hjartarósin, frostrósin og heillastjörnurnar. En Höskuldur hefur steikt hvorki meira né minna en 15 þúsund laufabrauðskökur fyrir þessi jólin. „Ég sé laufabrauð fyrir mér sem gott konfekt, og hér ertu að fá það allra besta. Mig langaði að koma heimagerðu laufabrauði á markað í sinni upprunalegu mynd, þar sem útlit og bragð er ósvikið,“ segir Höskuldur og bætir því við að laufabrauð sé hin fullkomna aðventugjöf handa þeim sem þér þykir vænt um.

Anna Pála sá um hönnun á útliti umbúðanna, sem eru …
Anna Pála sá um hönnun á útliti umbúðanna, sem eru umhverfisvænar. mbl.is/Mynd aðsend
Mynstrin á kökunum eru fimm talsins og kallast; jólastjarna, vonarstjarna, …
Mynstrin á kökunum eru fimm talsins og kallast; jólastjarna, vonarstjarna, hjartarós, frostrós og heillastjörnur. mbl.is/Mynd aðsend
Höskuldur er rísandi fótboltastjarna og spilar í meistardeild karla hjá …
Höskuldur er rísandi fótboltastjarna og spilar í meistardeild karla hjá Breiðablik. mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is