Mínípavlóvur eru hinn fullkomni eftirréttur

Kristinn Magnússon

Mínípavlovur eru mögulega það allra snjallasta sem hægt er að bjóða upp á í desert. Þær eru ákaflega auðveldar í bakstri og svo ótrúlega fallegar á diski.

Það er engin önnur en Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir á Döðlum & smjöri sem á heiðurinn af þessari uppskrift, sem er algjörlega upp í tíu!

Mínípavlovur

Botn
  • 6 eggjahvítur
  • 300 g sykur
  • 2 tsk. maíssterkja (maizena)
  • 1 tsk. sítrónusafi
  • 1 tsk. vanilludropar

Aðferð:

  1. Stillið ofn á 105°C, efri og neðri hita.
  2. Byrjið á því að setja eggjahvíturnar í hrærivél og hræra létt saman í 1-2 mín.
  3. Bætið þá sykrinum saman við smá í einu og stífþeytið.
  4. Þegar hvíturnar og sykurinn eru orðin stífþeytt bætið þá afganginum af hráefnunum saman við og blandið þeim saman við með sleikju.
  5. Setjið 2-3 msk. fyrir hverja pavlovu á bökunarpappír, þegar þið hafið deilt þeim niður sléttið hliðarnar á þeim og búið til smá holu í miðju hverrar köku, pláss fyrir fyllinguna.
  6. Setjið inn í ofn í 1 klst og 15 mín. Slökkvið þá á ofninum og leyfið þeim að kólna í minnst 30 mín. í ofninum áður en hann er opnaður.

Kaffirjómi með Daim

  • 1/2 l rjómi
  • 4 msk. kaffi, kælt
  • 1 msk. flórsykur
  • 100 g Daim

Aðferð:

  1. Léttþeytið rjómann og blandið saman við hann kaffi og flórsykri og hrærið vel saman.
  2. Saxið súkkulaðið niður og blandið saman við rjómann.

Samsetning

Þegar pavlovurnar eru orðnar kaldar fyllið þær þá með kaffirjómanum og skreytið með berjum, súkkulaði-/karamellusósu eða því sem hugurinn girnist.

Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

Uppskriftin kemur úr hátíðarmatarblaðinu okkar sem unnið var í samstarfi við Hagkaup og hægt er að nálgast HÉR.

Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert