Sósan sem sprengir áramótin

Ljósmynd/María Gomez

Þessi uppskrift kemur frá Maríu Gomez sem útbjó eitt allra glæsilegasta veisluborðið fyrir hátíðarmatarblað matarvefsins sem unnið var í samstarfi við Hagkaup.

Sjúklega góð sveppasósa með svörtum kantarellum

 • 1 geiralaus marinn hvítlaukur
 • 150 g ferskir kastaníusveppir
 • ½ box þurrkaðar svartar kantarellur frá Borde
 • 25 g smjör til steikingar á sveppum
 • ½ tsk. salt fyrir sveppi
 • 50 g smjör
 • 1 dl hveiti
 • 4 dl volgt vatn
 • 5 dl nýmjólk
 • 1,5 dl rjómi
 • ½ dl hreinn rjómaostur
 • 2 msk. villikraftur
 • 1 sveppateningur
 • 1 pk rauðvínssósa
 • 2 msk. púðursykur
 • 1 msk. rifsberjahlaup
 • 1 tsk. villijurtir frá Pottagöldrum eða þurrkað timían frá Santa María
 • ½ tsk. borðsalt
 • svartur pipar
 • sósulitur

Aðferð:

 1. Vinnið þurrkuðu sveppina eftir leiðbeiningum á boxi og skerið svo smátt ásamt ferskum sveppum.
 2. Bræðið 25 g smjör á pönnu og merjið 1 geiralausan hvítlauk.
 3. Steikið bæði þurrkaða og ferska sveppi upp úr smjörinu og saltið með ½ tsk. af borðsalti þar til þeir eru vel brúnir.
 4. Setjið þá marða hvítlaukinn út á og slökkvið undir pönnuni. Hafið áfram á heitri hellunni og hrærið vel saman og leggið svo til hliðar.
 5. Bræðið 50 g af smjöri í potti og setjið svo hveitið út á og hrærið vel þar til verður að smjörbollu, hrærið í eina mínútu og hellið volgu vatninu smátt og smátt út á meðan hrært er vel í á meðan þykknar í glansandi silkimjúkan jafning.
 6. Bætið næst púðursykri, rifsberjahlaupi, villikrafti, sveppateningum, ½ tsk. af borðsalti, pipar, villijurtum og duftinu úr rauðvínssúpunni út á og hrærið allt vel saman þar til teningar eru fullleystir upp.
 7. Setjið þá mjólk, rjóma og rjómaost út á og hrærið vel saman og setjið sósulit út í þannig að sósan verði fallega brún.
 8. Setjið svo alla sveppi út í sósuna og hrærið vel þar til suða kemur upp og lækkið þá undir.
 9. Leyfið sósunni að sjóða í lágmark 30 mínútur eða lengur.
 10. Smakkið til og saltið og piprið ef þarf.
Ljósmynd/María Gomez

Uppskriftin kemur úr hátíðarmatarblaðinu okkar sem unnið var í samstarfi við Hagkaup og hægt er að nálgast HÉR.

mbl.is