Nýársdagur langstærsti dagur ársins

Ljósmynd/Lólý

Dagar eru misannasamir hjá veitingastöðum og það kemur eflaust mörgum í opna skjöldu en nýársdagur er langstærsti dagur Dominos og hefur verið í mörg ár.

Að sögn Helgu Thors, markaðsstjóra Dominos, kann fólk þar á bæ litlar skýringar á því hvað veldur. „Það hafa löngum verið vangaveltur um ástæðuna fyrir því. Eru landsmenn búnir að fá nóg af tvíreykta hangikjötinu og waldorfsalatinu, trufflumús og graflaxi og þrá pítsuna sína? Eða er það vegna þess að fólk nennir ekki að standa lengur í eldhúsinu og sér tækifæri til að leggja frá sér svuntuna, halla sér aftur og bíða eftir að maturinn komi upp að dyrum?“ segir Helga og sjálfsagt taka flestir undir það að það sé stundum ákaflega gott að láta aðra sjá um eldamennskuna. 

Helga segir að fyrirtækið sé vel undirbúið og því þurfi enginn að óttast of langa bið vegna annrískis þannig að Íslendingar geta haldið í sínar hátíðarhefðir og pantað sér rjúkandi pítsu á nýársdag og boðið 2021 hjartanlega velkomið.

mbl.is