Sara stimplar sig inn á Hamborgarafabrikkuna

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands.
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands. mbl.is/Hari

Sara Björk Gunnarsdóttir kórónaði magnað ár og einstakan feril þegar hún var kjörin íþróttamaður ársins í annað sinn, með fullt hús stiga. Hún er fyrsta konan til að hljóta nafnbótina í tvígang og enginn hefur áður sigrað í kjörinu með meiri mun. Af því tilefni hefur Hamborgarafabrikkan nefnt hamborgara henni til heiðurs.

„Við á Hamborgarafabrikkunni erum að springa úr stolti eins og allir Íslendingar. Þess vegna er það okkur sönn ánægja að fá að heiðra Söru Björk með glænýjum hamborgara. Ég á sjálfur tvær dætur og sé það með eigin augum hvers virði það er að hafa fyrirmyndir eins og Söru Björk. Við Sara erum búin að vera að undirbúa þetta samstarf síðan í haust en okkur fannst við hæfi að tilkynna þetta núna í lok þessa sérkennilega árs. Enda verður árið 2021 ár upprisunnar, fullt af tækifærum, áskorunum og gleði”, segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna og Hamborgarafabrikkunnar.  

Sara Björk segir sjálf að keppnisskap og hugarfar einkenni hana bæði sem leikmann og manneskju. Sara er uppalin í Haukum þar sem hún lék til 18 ára aldurs, færði sig þá til Breiðabliks og þaðan í atvinnumennsku 20 ára gömul. Ferilinn hennar hefur samfelld sigurganga og sér ekki fyrir endann á því, enda leikur Sara í dag með besta félagsliði heims, Olympigue Lyon, þar sem hún lyfti bæði franska bikarnum og sigraði Meistaradeild Evrópu, á sama árinu.

Samstarfið við Hamborgarafabrikkuna er virkilega skemmtilegt, enda snýst það um að hvetja íslenskar stelpur til dáða. Ég hef alltaf haft óbilandi trú á sjálfri mér þegar kemur að fótbolta og finnst engin takmörk fyrir því hve langt ég get komist ef ég legg nógu mikið á mig til þess að komast þangað. Það eru skilaboðin sem ég vil senda til allra íslenskra stelpna. Ég er sjálf mikil hamborgaramanneskja og ég hlakka til að vígja borgarann þegar hann er tilbúinn, hann verður geggjaður“, segir Sara Björk.

Hamborgarinn hefur fengið nafnið Sara#7 og verður vígður á vormánuðum. „Við trúum því að Kári og Þórólfur séu að fara að græja þetta bóluefni og viljum því aðeins bíða með að ákveða hvenær við byrjum með Söru#7. Best væri ef að fjöldatakmarkanir væru foknar út í veður og vind svo að sem flestir geti komið og prófað. Við viljum sem minnst segja um það hvernig hamborgarinn verður samsettur en ég get þó upplýst að honum fylgir að sjálfsögðu Sara í eftirrétt“, bætir Jóhannes við að lokum.  

Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna.
Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna. Eggert Jóhannesson
mbl.is