Húsráðin sem gott er að kunna

Nokkur vel valin húsráð er snúa að grænmeti og ávöxtum …
Nokkur vel valin húsráð er snúa að grænmeti og ávöxtum og gott er að vita. mbl.is/colourbox

Það er ómetanlegt að luma á góðum húsráðum til að fara eftir og/eða deila með öðrum. Hér eru nokkur vel valin húsráð er snúa að grænmeti og ávöxtum sem gott er að kunna. 

Kryddjurtir eru eins og fersk blóm – þær vilja smá ást og nóg af vatni. Það ber að skera neðst af rótunum og setja jurtirnar strax í vatn, þannig munu þær haldast vel og lengi.

Epli á helst að geyma á köldum og rökum stað til að þau viðhaldi ferskleika sínum  og þá er sniðugt að leggja rakt eldhúsrúllubréf ofan á þau. Epli innihalda efnið etýlen sem stuðlar að meiri þroska á öðrum matvörum sem liggja nálægt, svo gott er að hafa það í huga þegar þú leggur eplin inn í ísskáp. Og þá helst að setja þau í sérskúffu ef hægt er.

Sítrusávextir eins og appelsínur, límónur, sítrónur og greip eiga að vera í lokuðum pokum inni í ísskáp. Til að ná sem mestum safa úr ávöxtunum skaltu láta þá standa aðeins á eldhúsbekknum þar til þeir hafa náð stofuhita.

Sveppi skal alltaf taka úr bakkanum og setja í bréfpoka og inn í ísskáp. Pappírínn dregur í sig rakann og heldur sveppunum lengur ferskum.

Hnetur geta fljótt dalað eftir að pokinn er opnaður. Ef þú geymir þær í lofttæmdu íláti inni í ísskáp munu þær duga þér í nokkra mánuði.

mbl.is