Í tilefni af því að Blackbox hefur verið opnað á Hamborgarafabrikkunni á Akureyri þá hafa þessi tvö nýjungagjörnu veitingahús ákveðið að endurvekja samstarf sem vakti mikla athygli á síðasta ári.
Blackbox þróaði hamborgarapizzu og Fabrikkan þróaði pizzahamborgara. Nú eru þessir skyldusmakksréttir fáanlegir á öllum Fabrikkum og Blackbox-stöðum í takmarkaðan tíma.
Það eru þeir Jóhannes Ásbjörnsson á Fabrikkunni og Karl Viggó Vigfússon á Blackbox sem eiga heiðurinn af þessu skemmtilega uppátæki en samstarf sem þetta hefur ekki verið mjög algengt hérlendis en er vinsælt erlendis. Þar kallast kokkar og veitingastaðir á og er útkoman alla jafna stórskemmtileg. Að sögn Jóhannesar var aðdragandinn að samstarfinu hrein áskorun. „Blackbox skoraði á okkur og það er ekki annað hægt en að taka svona áskorun enda vissum við að útkoman yrði geggjuð. Að búa til hamborgara undir áhrifum frá Blackbox og þeir að gera pítsu undir áhrifum frá Fabrikkunni.“