Morgunverðarpítsa að hætti Snorra

Þessi morgunverðarpítsa slær öll met!
Þessi morgunverðarpítsa slær öll met! Mbl.is/Snorri Guðmundsson

„Þessi pítsa tékkar í öll réttu boxin og er akkúrat það sem maður vill á kósí laugardagsmorgni,“ segir Snorri Guðmunds hjá Mat og myndum. Og við tökum heilshugar undir með honum.

„Þessi uppskrift að pítsudeigi er svakalega einföld og skilar manni æðislegum botni, en hún krefst smá þolinmæði þar sem deigið þarf að taka sig í tvo daga áður en pítsurnar eru bakaðar og því gott að plana aðeins fram í tímann. Þú munt samt ekki sjá eftir því! Það er auðvitað líka í fínu lagi að nota tilbúið pítsudeig ef tíminn er af skornum skammti,“ segir Snorri, sem mælir jafnframt með því að nota pítsustein.

Morgunverðarpítsa að hætti Snorra

  • Brauðhveiti, 420 g + smá meira til að vinna með
  • sykur, 10 g
  • borðsalt, 7 g
  • þurrger, 7 g
  • ólífuolía, 6 msk
  • vatn, 280 g
  • smjör, 20 g
  • hvítlaukur, 1 rif
  • mozzarella rifinn, 150 g
  • parmesan eða pecorino, smá bútur
  • silkiskorin skinka, 40 g / Ali
  • egg, 2-3 stk
  • laukur, 1/4 lítill
  • grillkrydd, eftir smekk / Santa Maria
  • breiðblaða steinselja, 4 g

Aðferð:

  1. Hitið vatnið í 30-40 sek í örbylgjuofni þar til það er svipað heitt og notalegt bað.
  2. Setjið hveiti, sykur, salt og þurrger í matvinnsluvél og látið vélina ganga í stuttum hrinum í 4-5 skipti þar til allt hefur samlagast vel. Hellið vatni og 2 msk af ólífuolíu yfir hveitiblönduna og látið vélina ganga samfleytt í 15 sek. þar til deigkúla hefur myndast. Látið vélina svo ganga í 15 sek. til viðbótar.
  3. Stráið smá hveiti á borð og takið deigið úr matvinnsluvélinni. Hnoðið deigið í stutta stund, skiptið því svo í tvennt og myndið úr því 2 kúlur. Spreyið eða smyrjið 2 skálar með olíu og færið deigið í skálarnar. Hyljið með matarfilmu og setjið í kæli í 2 sólarhringa.
  4. Takið 1 kúlu úr kæli 2 klst. áður en baka á pítsuna. Hina kúluna má nota innan 2 daga.
  5. Leggið grind í botninn á ofni og pítsustein þar ofan á. Stillið ofninn á 250°C með yfir- og undirhita og látið steininn hitna upp með ofninum.
  6. Bræðið smjör með 1 pressuðu hvítlauksrifi. Skerið lauk í strimla.
  7. Hafið bökunarpappír tilbúinn til þess að leggja deigið á.
  8. Notið hendurnar til þess að fletja botninn út í um 30 cm hring á borðinu. Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 2 cm af kantinum við sem mestu hnjaski, en þannig er gasinu sem hefur myndast yfir síðustu 2 daga ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist mun betur. Færið botninn yfir á bökunarpappír
  9. Smyrjið botninn með hvítlaukssmjöri, rífið parmesan/pecorino yfir og dreifið svo mozzarellaosti yfir. Rífið skinkuna og raðið yfir ostinn og stráið lauk yfir. Kryddið rausnarlega með grillkryddi.
  10. Það er hægt að setja eggin á pítsuna á tvo vegu:
  11. Ef eggin er sett í heilu lagi með rauðunni á pítsuna og hún svo bökuð verður miðjan svipuð því og í linsoðnu eggi, sem er ljúffengt.
  12. Annars má aðskilja rauðuna og hvítuna og setja einungis hvítuna á pítsuna, þegar eldunartími pítsunnar er hálfnaður er rauðan svo sett ofan á hálfeldaða hvítuna og eldunartíminn kláraður. Þannig helst rauðan meira fljótandi.
  13. Notið pítsuspaða til þess að færa pítsuna á bökunarpappírnum á heitan pítsusteininn. Bakið í 6-7 mín eða þar til pítsan er orðin fallega gyllt og osturinn kraumandi. Þegar tíminn er hálfnaður er gott að fjarlægja bökunarpappírinn (og bæta eggjarauðunum við ef sú aðferð varð fyrir valinu).
  14. Saxið steinselju og dreifið yfir pítsuna áður en maturinn er borinn fram.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert