Bulsur frá Havarí nú fáanlegar sem ferskvara

Einn frægasti vegan-biti þjóðarinnar, Bulsurnar frá Havarí, eru nú loksins fáanlegar sem ferskvara. Jafnframt koma þær einnig í stærri og handhægari umbúðum sem ætti að gleðja Bulsu-aðdáendur sem hingað til hafa einungis getað keypt bulsurnar frosnar. 

Það er tónlistarmaðurinn Svavar Pétur, betur þekktur sem Prins Póló, sem er maðurinn á bak við Bulsurnar en hann hætti að borða kjöt árið 2012. Hann var ánægður með þá ákvörðun en dauðlangaði samt alltaf í Pulsu. Hann hóf að gera tilraunir með það að markmiði að búa til grænmetispylsu sem innihéldi staðbundin hráefni svo framarlega sem kostur væri. Eftir margar tilraunir litu Bulsur dagsins ljós vorið 2013 og hafa verið seldar í matvöruverslunum og  veitingastöðum síðan þá við góðan orðstír.

Bulsur eru búnar til úr íslensku lífrænt ræktuðu bankabyggi, baunum, mjöli, fræjum og eru án allra aukaefna . Hráefnin eru valin af kostgæfni og Bulsur innihalda lífræn innihaldsefni öðrum fremur og innlend hráefni þegar því verður við komið. Þær eru kryddaðar með ferskum hvítlauk og ferskum chilipipar.

Hingað til hafa Bulsurnar verið seldar sem frystivara en núna í veganúar koma þær loksins sem ferskvara og í stærri og handhægari umbúðum.

mbl.is