Þjófstarta bolludegi með stórkostlegum bóndabollum

Ljósmynd/Aðsend

Undirrituð er forfallin áhugamanneskja um bollur og uppáhaldsdagur ársins er nokkuð augljóslega bolludagurinn. Hann verður haldinn hátíðlegur hinn 15. febrúar næstkomandi en snillingarnir í GK bakaríi á Selfossi ákváðu að taka smá forskot á sæluna og baka sérstaka bóndabollu sem er algjörlega geggjuð.

Það eru þeir Guðmundur Helgi og Kjartan sem eiga heiðurinn af þessari snilld en þeir segja að hugmyndin hafi verið að bjóða upp á bollu í tilefni bóndadagsins og þorrans sem væri í senn grjóthörð og girnileg. Útkoman er vatnsdeigsbolla fyllt með þeyttum ganache úr Stuck at Home-mjólkurstout frá Smiðjunni Brugghúsi á Vík.

„Við gerum allar okkar fyllingar og deig frá grunni, og það opnar á heilan heim tækifæra til að leika sér með alls konar spennandi hráefni og bragð,“ segja þeir félagar og eru afar ánægðir með útkomuna.

„Við leggjum mikla áherslu á að sækja hráefni og vörur til fyrirtækja í nágrenninu sem okkur þykja vera að gera góða hluti. Við höfum leitt hesta okkar saman með mörgum fyrirtækjum hér á undirlendinu, til að mynda bruggað kanilsnúðabjór með Ölverk brugghúsi í Hveragerði og bakað brauð úr kryddjurtum frá Ártanga og kynnt pörun á áleggi og meðlæti frá þeim með margskonar brauðtegundum.“

Þeir segja tilkomu samstarfsins við Smiðjuna auðútskýrða. „Við erum miklir aðdáendur handverks í öllu formi, og dáumst að fólki sem þorir að fylgja sannfæringunni og bera þá kosti á borð sem það er gætt og taka slaginn. Svo seldi Sveinn mér marga metra af gítarsnúrum þegar hann rak hljóðfæraverslun hér á Selfossi í gamla daga svo það voru hæg heimatökin að hafa samband og sjá hvort þau vildu ekki dansa.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert