Svona bakar þú saltkringlur

Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Berglind Hreiðars á Gotteri.is bakaði þessar geggjuðu saltkringlur og við máttum til með að deila uppskriftinni.

„Ég hef lengi ætlað að prófa að baka svona „Pretzels“ eða saltkringlur eins og þær kallast víst á góðri íslensku. Þegar við erum erlendis kaupum við reglulega svona í matarvögnum en ég hef ekki orðið vör við þetta hérlendis. Best er að sjóða kringlurnar fyrst í matarsódavatnsbaði til að þær fái hið eina rétta saltkringlubragð og áferð, svona pínu teygjanleg en um leið mjúk að innan og stökk að utan. Þetta hljómar kannski flókið en er það alls ekki og ég var ekki lengi að útbúa þessa snilld því hefunartíminn er stuttur!“ segir Berglind um uppskriftina sem er vel þess virði að prófa.

Mjúkar saltkringlur

Uppskrift gefur 14 saltkringlur

 • 350 ml volgt vatn
 • 1 þurrgerspoki
 • 1 msk. púðursykur
 • 1 tsk. salt
 • 30 g brætt smjör
 • 770 g hveiti
 • sjávarsalt
 • 1,5 l vatn og 90 g matarsódi til suðu
 • ostasósa
 1. Hrærið saman vatn, þurrger og púðursykur þar til gerið fer að freyða.
 2. Bætið þá salti og smjöri saman við og hveitinu í nokkrum skömmtum, hnoðið með króknum á hrærivélinni eða í höndunum í stórri skál.
 3. Mögulega þarf að setja aðeins minna/meira af hveitinu en best er að reyna að hafa deigið eins blautt í sér og hægt er, án þess þó að það klístrist við alla fingur/skál.
 4. Leyfið deiginu að hefast í skál sem búið er að pensla með matarolíu að innan í um 20 mínútur.
 5. Setjið á meðan vatn og matarsóda í pott og hitið að suðu ásamt því að hita ofninn í 200°C.
 6. Skiptið deiginu niður í 14 hluta, rúllið hvern út í jafna lengju sem er um 50 cm á lengd. Reynið að endurhnoða deigið sem minnst og halda í því loftinu því þá verða kringlurnar mýkri í sér.
 7. Takið jafnóðum hverja lengju, snúið upp á endana og mótið úr henni kringlu. Leggið varlega í pottinn og sjóðið í um 20 sekúndur. Ég notaði kleinuspaða til að veiða þær upp úr og best er að hrista vatnið vel af þeim og leggja þær síðan á bökunarpappír á bökunarplötu.
 8. Stráið sjávarsalti yfir hverja kringlu og bakið í 10-12 mínútur eða þar til þær verða vel gylltar. Ég kom sjö og sjö kringlum fyrir hverjum á sinni plötunni.
 9. Berið fram með heitri ostasósu.
Ljósmynd/Berglind Hreiðars
mbl.is